Vladimir Salnikov verður fulltrúi FINA á Smáþjóðaleikum á Íslandi
Vladimir Salnikov, fjórfaldur Ólympíumeistari og margfaldur heimsmeistari í 1500 metra skriðsundi, verður fulltrúi FINA, Alþjóðasundsambandsins, á Smáþjóðaleikunum sem verða á Íslandi í byrjun júní nk.
Salnikov er eitt af stóru nöfnum sundsögunnar, synti 800 metra skriðsund sund fyrstur manna á skemmri tíma en átta mínútur og 1.500 metra skriðsund undir 15 mínútum. Hann sló Evrópumetið í 1.500 metra skriðsundi, á Ólympíuleikunum í Montreal 1976 og endaði fimmti í greininni. Hann var Evrópumeistari í 400, 800 og 1.500 metra skriðsundi á Evrópumeistaramótinu árið eftir, sigraði alla keppninauta sína í 800 og 1.500 metra skriðsundi næstu ár og vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum, Heimsmeistaramótum og Evrópumeistaramótum ásamt því að setja Ólympíu-, heims- og Evrópumet.
Salnikov synti undir 15 mínútum í 1.500 m skriðsundi, fyrstur manna, á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980, 14.58,27 mínútum. Hann bætti heimsmetið sitt tveimur árum síðar er hann synti vegalengdina á 14.54,76. Það met stóð í níu ár, þannig að hann hélt metinu í greininni í 11 ár.
Salnikov gat ekki varið ólympíutitil sinn í á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984, þar sem Sovétríkin hunsuðu þá leika líkt og Bandaríkin höfðu gert gagnvart leikunum í Moskvu 1980 og þurfti sérstaka undanþágu til þess að vera í ólympíuliði Sovétmanna á Ólympíuleikunum í Seúl 1988 vegna aldurs. Hann afsannaði allar kenningar um að hann væri orðinn of gamall til þess að blanda sér í keppni þeirra bestu með því að vinna gullverðlaunin í 1.500 metra skriðsundi. Hann var 28 ára gamall og sagðist hann ekkert muna eftir síðustu 20-30 metrum sundsins svo þreyttur var hann. Þess má til gamans geta að á þeim leikum synti Ragnar Guðmundsson 1500 metra skriðsund fyrir Íslands hönd og setti þar Íslandsmet í greininni, 15:57,54, sem stóð allt til ársins 2011 þegar Anton Sveinn Mckee sló það á Smáþjóðaleikunum í Liechtenstein 2011 er hann synti þar á 15:49,61.
Vladimir Salnikov hefur fylgt íþróttinni sinni vel eftir í kjölfar keppnisferlsins. Hann var í Ólympíunefnd Sovétríkjanna frá 1984 til 1991 og landsliðsþjálfari Sovéska sundliðsins í tvö ár eftir hann hætti keppni. Hann vann hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í sundtengdum vörum og var varaformaður Sovéska sundsambandsins síðustu árin sem Sovétríkin lifðu. Á árunum 1991 til 2000 sat hann í íþróttamannanefnd FINA og var meðlimur sundtækninefndar LEN á tímabili.
Hann hefur um langt árabil setið í stjórn Rússneska sundsambandsins og verið formaður þar frá árinu 2009. Hann situr í stjórn LEN, Evrópska sundsambandsins og einnig í stjórn FINA, Alþjóðasundsambandsins.
Salnikov hefur hlotið ýmsa viðurkenningu heima og heiman. Hann var tam sæmdur Lenin orðunni 1985 og heiðursorðu rússneska lýðveldisins (sambærileg fálkaorðunni) 2010. Hann var tekinn inn í Alþjóðlega heiðurshöll sundíþrótta 1993.


.jpg?proc=100x100)






