Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fossvogsskóli og Holtaskóli grunnskólameistarar í sundi 2015

21.04.2015

Árleg boðsundskeppni grunnskólanna fór fram í annað skipti í dag. Sundsamband Íslands hélt keppnina í Ásvallalaug í Hafnarfirði í góðu samstarfi við Sundfélag Hafnarfjarðar.

Alls voru 22 skólar skráðir til leiks með 43 lið í heildina. Keppt var í flokki 5.-7. Bekkjar annarsvegar og 8.-10. Bekkjar hinsvegar í 8x25 metra boðsundi með frjálsri aðferð.

Keppnin fór þannig fram að 12 hröðustu liðin úr hvorum flokki fóru í undanúrslit og þar fóru 6 hröðustu liðin áfram í fyrri úrslitariðil. Þar kepptu liðin uppá að komast í lokaúrslitariðil sem innihélt 3 lið og kepptust beint um verðlaunasætin þrjú. Allt í allt gátu þeir hröðustu því synt fjórar umferðir.

Gífurleg stemning myndaðist í lauginni en ætla má að um 360 börn hafi mætt í laugina ásamt fylgdarfólki. Þau fengu svo öll þátttökuverðlaun frá SSÍ að keppni lokinni.

Úrslit urðu svohljóðandi:

5.-7. Bekkur:

1. Fossvogsskóli - tími 2:04,39 mín
2. Holtaskóli - tími 2:09,23
3. Grunnskóli Borgarfjarðar - tími 2:16,59

8.-10. Bekkur:

1. Holtaskóli - tími 1:50,39
2. Akurskóli - tími 1:52,24
3. Laugalækjarskóli - tími 1:53,38

Um leið og við óskum þessum liðum til hamingju með árangurinn þá þökkum við kærlega fyrir skemmtilegt mót og vonumst til að sjá alla aftur að ári. Sundsambandið stefnir á að festa mótið í sessi á atburðadagatalinu hjá sér enda augljóst að gífurlegur áhugi er fyrir því hjá bæði börnum og kennurum.

Heildarúrslit mótsins hér
(ef tengill virkar ekki er hægt að hægrismella og ýta á "save link as" og skoða beint úr tölvunni)

Myndir á Facebooksíðu Sundsambandsins

Til baka