Þýðingarmikið skref í fjármögnun afreksíþrótta á Íslandi
Mjög stórt og þýðingarmikið skref var tekið í dag þegar undirritaður var samningur milli Mennt- og menningamálaráðuneytisins og ÍSÍ um fjármögnun Afrekssjóðs ÍSÍ til næstu þriggja ára. Jafnframt voru undirritaðir þrír aðrir samningar um hækkun á framlögum til reksturs sérsambanda ÍSÍ, til reksturs ÍSÍ og Ferðasjóðs ÍSÍ. Allt eru þetta þýðingarmiklir samningar, eins og menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson, komst að orði, en samningurinn um Afrekssjóð er stærstur og breytir mestu fyrir afreksíþróttir á Íslandi.
Athöfnin fór fram í garðinum bak við hús ÍSÍ, sérsamböndin höfðu með stuttum fyrirvara kallað til íþróttafólk til að vera viðstatt hana, en Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkisins og Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ fyrir hönd ÍSÍ. Þá var forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, viðstaddur og vottaði samninginn ásamt Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ.





