Fréttir af sundhópnum í Kazan sem tekur þátt í HM50
Þá eru fyrstu íslensku keppendurnir mættir til Kazan í Rússlandi, þar sem þau munu stunda æfingar þar til Heimsmeistaramótið í 50m laug hefst þ. 2.ágúst nk. Keppnin mun standa til 9.ágúst og þeir sundmenn sem taka þátt eru: Anton Sveinn Mckee, Bryndís Rún Hansen, Eygló Ósk Gústafsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir.
Hér má lesa fyrstu fréttir sem bárust frá Unni sjúkraþjálfara í dag eftir komuna til Kazan.
Þá erum við mætt til Kazan, eftir nokkuð þægilegt ferðalag. Lögðum af stað til Köben í gær, fimm saman – Eygló, Jóhanna og Bryndís ásamt Jacky þjálfara og undirritaðri. Við gistum í Köben og héldum svo áfram til Moskvu í morgun. Þar tók reyndar við smá hlaup þar sem stutt var í flugið til Kazan og miklir og langir gangar sem við þurftum að ganga/hlaupa til að komast að vélinni. En þetta hafðist og lentum við í Kazan uppúr 17 að staðartíma. Í Moskvu hittum við fyrir Anton þá vantar einungis Hrafnhildi sem kemur til okkar á morgun. Reyndar skilaði taskan mín sér ekki á áfangastað svo ég vona að hún komi líka á morgun – ávallt bjartsýn
Rússarnir hafa skapað flotta umgjörð um Heimsmeistaramótið og er aðstaða íþróttamannana nokkuð góð, þó hægt sé að segja að umbúðirnar séu betri en innihaldið. Herbergin eru komin til ára sinna, en það sem við erum búin að sjá af aðstöðunni hérna í kring, er frábært. Við erum samt ekki búin að fara á æfingu svo það er spennandi að sjá hvernig laugin er
Bestu kveðjur heim, Unnur Sædís sjúkraþjálfari!









