Beint á efnisyfirlit síðunnar

HUSAIN AL MUSALLAM kosinn 1. varaforseti FINA

23.07.2015

Fyrir þinginu lágu tillögur sem miða að því auka völd núvernadi forystu FINA og tryggja að litlar breytingar geti orðið á kosningaþinginu 2017.  Meginbreytingarnar eru þrennskonar: í fyrsta lagi er öllum aldursmörkum forseta og stjórnarmanna fyrirkomið, þannig að þeir geta nú setið til æviloka.  Þá er mögulegum kjörtímabilum forseta fjölgað úr tveimur í þrjú.  Í þriðja lagi eru skyldur aðalritara komið í hendur 1. varaforseta (staða sem var búin til núna) og staða aðalritara lögð niður eftir þingið 2017.  Í fjórða lagi er fjölgað í framkvæmdaráði FINA úr 5 í 8.  Norænu samböndin ákváðu ýmist að samþykkja eða að sitja hjá við þessa ákvörðun, en fulltrúar þeirra voru sammála um að þessar breytingar myndu ekki færa FINA fram á við. En fulltrúar NSF voru einnig á því að á þessu stigi málsins hefði ekkert upp á sig að gera læti á þinginu, forseti NSF hefði þegar sent FINA bréf þar sem áhyggjur NSF voru tíundaðar ásamt því að óska skýringa á þessum tillögum. Fulltrúi Íslands sat hjá við kosningar um þessar breytingar og einnig við kosningu á nýjum 1.varaforseta.

Í kjölfar þessara breytinga var nýr 1.varaforseti kjörinn úr hópi þeirra 5 varaforseta sem sitja í stjórn FINA.  Niðurstaðan var sú að HUSAIN AL MUSALLAM frá Kuwait var kjörinn 1. varaforseti.  Ekki var óskað eftir mótatkvæðum.  

Þessar breytingar geta leitt til þess að ákveðinn hópur rikja komist í þá stöðu að hafa óeðlilega mikil áhrif í Alþjóðaólympíunefndinni og allt bendir til þess að nær ótakmarkað fjármagn að baki einstakra fulltrúa ráði för.  Það er miður í ljósi þess að annars staðar í alþjóðaíþróttahreyfingunni eru komin upp mikil vandræði vegna fjármuna sem renna í vasa einstakra stjórnarmanna þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum um staðsetningu stórmóta.

Á myndinni má sjá varaforsetana fimm ráða ráðum sínum úti í horni á fundarsalnum þar sem þingið fór fram - hinn nýji 1.varaforseti er fyrir miðri mynd.

Til baka