Beint á efnisyfirlit síðunnar

Í upphafi sundárs - Leiðrétt gögn komin á netið

22.09.2013

Undanfarnar vikur hefur stjórn og starfsfólk SSÍ unnið að því að setja saman þau gögn sem máli skipta fyrir nýbyrjað sundár.  Við höfum kallað eftir athugasemdum og aðstoð úr hreyfingunni og hittum þjálfara, formenn og foreldra/forráðamenn landsliðsfólks á fundum.  Þessi samskipti hafa verið gefandi og leitt margt ágætt af sér.  Landsliðsnefnd og Dómara-, móta- og tækninefnd hafa haldið fundi og stjórn SSÍ hefur komið saman í tvígang á þessu hausti til að ræða þessi mál, annars vegar 14. ágúst og hins vegar 18. september.

Til að sjá gögnin sem eru þegar komin inn er hægt að smella á hlekkina og þá verðið þið leidd að beint að þeim.

Ýmsar ákvarðanir hafa verið teknar og breytingar hafa verið samþykktar undanfarnar vikur.  Þar er fyrst til að taka breytingar á stjórn SSÍ.  Karen Malmquist stjórnarmaður hefur tekið sér leyfi frá stjórnarstörfum ótímabundið vegna persónulegra mála.  Jón Oddur Sigurðsson hefur sagt sig frá störfum í stjórn SSÍ vegna anna.  Þau munu bæði tengjast sundhreyfingunni áfram og sinna einstökum verkefnum, eftir því sem verkast.  Í stað þeirra koma inn í stjórn varamennirnir, Ingibjörg Kristinsdóttir og Jónas Tryggvason.

Stefna SSÍ sem samþykkt var á 60. sundþingi er komin á síðuna og hægt að finna hana hér.

Unnið hefur verið að atburðadagatali SSÍ.  Það er nánast tilbúið og verður gefið út í endanlegri mynd eftir ársþing Evrópska sundsambandsins, LEN nú í lok mánaðar.

Lágmörk fyrir SSÍ mótin eru tilbúin og birt á heimasíðu SSÍ og lágmörk og viðmið fyrir landsliðsverkefni eru einnig tilbúin að mestu og birt á heimasíðunni.  Þá var reglugerðum fyrir ÍM25, ÍM50, UMÍ og AMÍ breytt lítillega til að koma til móts við mjög ákveðnar ábendingar úr hreyfingunni. 

Stjórn SSÍ hefur staðsett öll sundmót sambandsins, ennþá á eftir að fastnegla staðsetningu á Íslandsmóti og Bikarkeppni í Sundknattleik og það hefur ekki verið sett dagsetning á Íslandsmót í víðavatnssundi og dýfingum.  Víðavatnssundið fer fram í Nauthólsvík og dýfingarnar í Sundhöll Reykjavíkur.  Að öðru leyti verða mót SSÍ staðsett sem hér segir:

 • ÍM25 verður í Ásvallalaug, framkvæmdaaðili SH.
 • Bikarkeppni SSÍ verður í Laugardalslaug, framkvæmdaaðili SSÍ.
 • ÍM50 verður í Laugardalslaug, framkvæmdaaðili SSÍ.
 • 3 og 5 km mót verður í Laugardalslaug, framkvæmdaaðili SSÍ.
 • IMOC verður í Kópavogslaug, framkvæmdaaðili Breiðablik..
 • AMÍ verður í Vatnaveröld Reykjanesbæ, framkvæmdaaðili ÍRB.
 • UMÍ verður í Ásvallalaug, framkvæmdaaðili SH.

Hy-tec skrár fyrir öll mót SSÍ munu berast félögunum á næstu dögum.

Í lok ÍM25 verður að venju uppskeruhátíð SSÍ fyrir síðasta sundár, en ekki hefur verið gengið frá því hvar það verður, né hver kostnaður við það verður.  Stjórn SSÍ hefur áhuga á að í lok UMÍ verði einhverskonar sumarhátíð þar sem margir sundmenn eru þá á leið í leyfi frá sundiðkun.  Hugmyndin hefur ekki verið útfærð, en allar ábendingar verða vel þegnar.

Gerðar hafa verið breytingar á II. kafla reglugerða SSÍ, Almennum ákvæðum, en þar var fyrst og fremst verið að færa textann til þess sem gert er í raunveruleikanum auk þess sem nokkrar ambögur voru lagfærðar.

III. kafla reglugerða SSÍ, Hlutverk SSÍ og starfsnefnda var einnig breytt lítillega, þar var bætt við einni starfsnefnd SSÍ, þjálfaranefnd, sem ætlað er að vera rödd starfandi þjálfara gagnvart SSÍ en einnig styðjandi við það starf sem fram fer á landsvísu í uppbyggingu sundíþróttarinnar.  Þessari nefnd er að auki ætlað að vera farvegur samtals milli starfandi þjálfara á hverjum tíma og stjórnar SSÍ.  Hulda Bjarkar þjálfari hjá Breiðablik hefur verið mjög ötull talsmaður sjónarmiða þjálfara á undanförnum mánuðum og á hún góðar þakkir skyldar fyrir það starf.  Ég hvet starfandi þjálfara til að tilnefna þrjá úr sínum hópi í þessa nefnd.  Best væri að tilnefningarnar bærust stjórn SSÍ fyrir stjórnarfund sambandsins 18. október. 

Skipaður hefur verið hópur til að vinna að betri útfærslu á Íslandsmóti félagsliða.  Þeir sem hafa verið beiðnir um að taka sæti í hópnum eru: Ingibjörg Kristinsdóttir úr stjórn SSÍ, Jón Hjaltason formaður KR, Heiðar Ólason formaður Óðins og Pétur G. Markan framkvæmdastjóri HSV.  Hópnum er ætlað að skila niðurstöðu fyrir 1. nóvember.

Stjórn SSÍ hefur samþykkt lágmörk og viðmið í landsliðsverkefni að tillögu Landsliðsnefndar og landsliðsþjálfara.  Sum lágmörkin eru heldur stífari en kynnt var á þjálfarafundi og formannafundi, þar sem mjög ákveðnar ábendingar komu fram frá þjálfurum um að þeim þætti fyrri tillagan of metnaðarlítil. 

Þá var samþykkt tillaga um að sundfólk sem nær lágmörkum inn á alþjóðleg mót, má synda aðrar greinar á viðkomandi móti að því tilskyldu að tími sem sundfólkið á í þeim greinum sé ekki meira en 1,50% lakari en lágmarkstími greinarinnar og reglur viðkomandi móts leyfi það.  Þjálfarar viðkomandi sundfólks þurfa að senda óskir til SSÍ varðandi slíkar aukagreinar þegar lágmarkatímabili lýkur.

Einnig var samþykkt tillaga um að einungis væri hægt að ná lágmörkum í alþjóðleg verkefni (landsliðsverkefni) á sundmótum sem eru á atburðardagatali SSÍ í upphafi sundtímabils (staðfest af landsliðsnefnd) og á mótadagatali LEN og FINA.  Landsliðsnefnd gefur út lista yfir mót sem gilda um leið og endanlegt atburðadagatal verður gefið út 1. október 2013.

Landsliðsnefnd og landsliðsþjálfari lögðu einnig fram tillögu um uppbyggingu landsliða sem stjórn hefur samþykkt.  Tillagan hljóðar svo:

„Landslið skiptast í

 1. Afrekslandslið
 2. Landslið
 3. Unglingalandslið
 4. Framtíðarhóp

Landsliðsnefnd setur viðmið fyrir hvern hóp fyrir sig

Einn úr stjórn eða landsliðsnefnd verður ábyrgur fyrir hverjum hópi

Landsliðsþjálfari velur þjálfara til að styðja við og sjá um hvern hóp.   Sá þjálfari vinnur náið með landsliðsþjálfara

Haldnir verða æfingadagar fyrir alla hópa – sameiginlega eða sér.“

Það er von okkar í stjórn SSÍ að þessi uppbygging fari fram á sem breiðustum grunni og allir þjálfarar verði viljugir að taka þátt í slíkri uppbyggingu.

Stjórn SSÍ og starfsfólk hafa líka gengið í að uppfæra metaskrár.  Þær verða birtar hér innan nokkurra daga.  Af fenginni reynslu er ekki ólíklegt að einhver met hafi fallið milli stafs og hurðar.  Því biðjum við ykkur að fara yfir metaskrárnar og benda okkur á ef þið sjáið villur, þannig að hægt sé að lagfæra þær fljótt og vel.

Stjórn SSÍ hefur ákveðið að kaupa mótaforritið Splash.  Um leið er félögum og deildum boðið að ganga inn í tilboð sem SSÍ hefur fengið frá rétthöfum bæði um móta- og þjálfarahluta forritsins.  Helstu kostir Splash umfram önnur mótaforrit er að það getur lesið gögn úr öðrum forritum, það er beintengt gagnagrunni og auðveldar utanumhald upplýsinga og auðvelt er að ná upplýsingum fram á ýmsu formi með því.  Þau félög og deildir sem hafa áhuga á að ganga inn í þessi viðskipti eru beðin um að vera í sambandi við Ingibjörgu framkvæmdastjóra fyrir 15. október.

Varðandi fjáröflun, þá eru að hefjast nokkur verkefni sem munu taka á sig mynd á næstunni.  Við vonum að þau skili okkur fjármunum til að auðvelda okkur starfið.  Ef þið hafið áhuga á að taka þátt í verkefnum með okkur megið þið gjarnan vera í samband við formann SSÍ.

Smáþjóðaleikarnir 2015 verða haldnir á Íslandi.  Sundið er okkar stærsta íþrótt á leikunum og mikilvægt að við í sundhreyfingunni stöndum okkur vel í undirbúningnum.  Við höfum þegar skipað í stöðu greinastjóra og umsjón dómgæslu og mannvirkja, en okkur vantar fólk til að taka að sér umsjón með undirbúningi á ýmsum sviðum.  Áætlað er að halda fyrsta „testmótið“ á ÍM50 2014, ráðgert er að RIG 2014 og ÍM50 2015 verði einnig notuð til að stilla okkur af.  Fram að því þurfum við að halda vel á spöðunum. 

Á undanförnum árum hafa formaður SSÍ og ritari SSÍ átt fundi með stjórnum félaga.  Þessir fundir hafa gefist ágætlega og við höfum getað glöggvað okkur á þeim málum sem brenna á stjórnum félaga og stundum höfum við getað lagt eitthvað af mörkum í þessum samtölum eða í framhaldi af þeim.   Það er ósk okkar hjá SSÍ að þessi samskipti haldi áfram í vetur.  Hafið endilega samband á formaður@sundsamband.is .

Heimasíða SSÍ var endurnýjuð síðastliðinn vetur og við höfum farið okkur gætilega í að þróa hana áfram.  Við viljum að síðan verði góð upplýsingasíða en ekki síður fréttasíða þar sem við söfnum saman sögunni okkar.  Ritstjórn síðunnar er í upphafi á höndum formanns, framkvæmdastjóra og mótastjóra, en ætlunin er að þeir sem fara sem fylgdarfólk í verkefnum geti einnig sett inn efni/fréttir á virkan hátt.  Fundargerðir núverandi stjórnar SSÍ eru nú allar aðgengilegar á síðunni ásamt þinggerð Sundþings 2013 er komin á síðuna ásamt þinggerð 2011.

Allar ábendingar um það sem betur má fara á síðunni eru vel þegnar á netfangið formadur@sundsamband.is .

Til baka