Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á undanförnum tveimur árum höfum við verið að uppskera í sundhreyfingunni. Í lok árs 2015 vann Eygló Ósk Gústafsdóttir til tvennra bronsverðlauna á EM25 í Ísrael og í maí 2016 bætti Hrafnhildur Lúthersdóttir um betur og vann til þrennra verðlauna á EM50 í London. Þessar tvær sundkonur náður svo báðar inn í úrslitariðla á Ólympíuleikunum í Rio de Janero í Brasilíu í ágúst síðastliðinn. Anton Sveinn Mckee hefur einnig verið að bæta sig mjög mikið hann var við sitt besta á ÓL og mun að líkindum koma vel undirbúinn til keppni á HM50 2017. Þá er einnig vert að geta Bryndísar Rúnar Hansen sem hefur sett sér mjög háleit markmið fyrir framtíðina.

Við í sundhreyfingunni verðum að styðja vel við þetta afreksfólk okkar sem hér er nefnt, en einnig þá sem næstir koma. En stóra verkefnið okkar á komandi árum er uppbygging í yngri hópum og uppbygginging félaga út um land. Þá er nauðsynlegt að ná tengslum við sveitarfélög sem bera ábyrgð á uppbyggingu mannvirkja því annars er hætt við að við drögumst aftur úr í þróun sem er mjög hröð í sundheiminum. Uppbygging garpasunds, víðavatnssund og sundknattleiks er líka mikilvægur, því þaðan er líklegt að við njótum stuðnings inn í keppnissundið.

Að stunda sundíþróttir til keppni er mjög agaður lífstíll sem krefst mikillar sjálfstjórnar, andlegrar og líkamlegrar uppbyggingar og síðast en ekki síst ákvörðunar um að leggja sig fram og ná árangri. Þeir sem stunda sundíþróttir til keppni þurfa einnig á góðum og staðföstum stuðningi að halda.
Svo eru þeir sem stunda sundíþróttir sér til ánægju og yndisauka. Það er ekki síður lífsstíll sem er til eftirbreytni. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir SSÍ að eiga sér stefnu í öllum sundíþróttum og sérstaklega iðkun almennings.
Það er gert hér í þessu litla hefti. Afreksstefnan er sett fram sem sérstakt þingskjal á Sundþingi, en á sér samt sem áður stoð í heildarstefnu SSÍ.

Það er von stjórnar SSÍ að þessi framtíðarsýn geti áfram verið áttaviti sundhreyfingarinnar til frekari útbreiðslu og afreka en minnir jafnframt á að texti í þessum dúr á að vera lifandi og breytilegur í raunverulegri framkvæmd.

 

Með kveðju
Hörður J. Oddfríðarson
formaður SSÍ

Hér fyrir neðan getur þú nálgast stefnuskjalið á pdf formi.

Stefna SSÍ 2017-2028 samþykkt á Sundþingi 2017

Afreksstefna SSÍ samþykkt á Sundþingi 2017