Opna Íslandsmótið í víðavatnssundi haldið í Nauthólsvík
Í gær fór fram Opna Íslandsmótið í víðavatnssundi í fallegu veðri við Nauthólsvík, en mótið var haldið af SJÓR í samstarfi við Sundsamband Íslands. Alls tóku 40 keppendur þátt að þessu sinni.
Veðurguðirnir léku við keppendur – sól og hiti var um 15 gráður. Sjórinn var í svipuðu hitastigi sem gerði aðstæður afar góðar til keppni.
Keppt var í þremur vegalengdum:
- 1 km – hentugt fyrir byrjendur og sundfólk úr lauginni.
- 3 km – fyrir vana keppendur í sjósundi, þríþraut og öðrum keppnisgreinum.
- 5 km – fyrir þá allra reyndustu í sjósundi.
Keppendur gátu valið á milli neoprene-galla og hefðbundinna sundfata, í samræmi við reglur World Aquatics (WA).
Lágmarksaldur til þátttöku var 16 ár og aldursflokkarnir voru: 16–34 ára, 35–49 ára, 50–64 ára og 65 ára og eldri.
Heiðranir og úrslit
Veitt voru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í hverjum aldursflokki. Að auki voru veitt sérstök heiðursverðlaun fyrir Sundkóng og Sunddrottningu mótsins, sem fara til þeirra sem synda 3 km án neoprene-galla.
- Sundkóngur var að þessu sinni enginn annar en Anton Sveinn McKee, sem synti 3 km á tímanum 41:36.13 virkilega vel gert hjá Antoni að rifja upp gamla takta í löngu sundunum.
- Sunddrottning var Laufey Rún Þorsteinsdóttir, sem einnig synti 3 km á tímanum 50:11.13. Þess má geta að Laufey lauk einnig við Viðeyjarsund fyrr í sumar.
Yfirdómari mótsins var Viktoría Gísladóttir, alþjóðlegur dómari á vegum Sundsambands Íslands, en með henni störfuðu reyndir dómarar SSÍ. Björgunarsveitir tóku virkan þátt og fylgdu sundfólki eftir á björgunarbátum og með sundköttum, svo öryggi væri í hávegum haft.
Við viljum koma á framfæri innilegu þakklæti til allra sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóg – hvort sem það voru fulltrúar úr stjórnum SSÍ og SJÓR, tímatökulið. Einnig voru fölmargir áhorfendur sem hvöttu keppendur áfram af miklum krafti.
Takk fyrir frábæra kvöldstund.
Heildarúrslit : Heildarúrslit opna íslandsmót í Víðavatnsundið 2025.pdf