Anton Sveinn og Eygló Ósk fá viðurkenningu frá ÍSÍ - Krístín Rós fær sæti í Heiðurshöllinni
Anton Sveinn Mckee og Eyglól Ósk Gústafsdóttir fengu í kvöld viðurkenningu frá ÍSÍ á hófi sem haldið er til að útnefna Íþróttamann ársins. Hófið var haldið í Gullhömrum og þar voru mættir allir þeir íþróttamenn og konur sem sérsambönd ÍSÍ og sérnefndir útnefndu sem íþróttamenn og íþróttakonur sinna íþróttagreina. Eygló Ósk var fjarri góðu gamni þar sem hún var við keppni í Frakklandi en í hennar stað tók Kristrún systir hennar við viðurkenningunni.
Þá var Kristín Rós Hákonardóttir sundkona úr Fjölni/ÍFR tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ, en hún er sú sjöunda sem hlýtur þann heiður.
Í hófinu var lið ársins útnefnt, Karlalandslið Íslands í knattspyrnu og þjálfari ársins Alfreð Gíslason þjálfari í Þýskalandi ásamt Íþróttamanni ársins Gylfa Þór Sigurðssyni knattspyrnumanni hjá Tottenham í Englandi.
Ýmsar skoðanir koma fram árlega á vali Íþróttamanns ársins. Í þeirri umræðu koma oft fram eðlilegar efasemdir um aðferðafræði valsins, en ekki síður óviðurkvæmilegar fullyrðingar sem fyrst og fremst eru til þess fallnar að rýra orðstýr þess íþróttamanns sem nafnbótina hlýtur. Það segir sig sjálft að við viljum ekki vera hluti af neikvæðri umræðu gagnvart íþróttafólki, en hins vegar er sundhreyfingin tilbúin til samræðna um aðferðafræði á vali ársins á íþróttamanni, þjálfara og liði ársins ef hún fer fram á málefnanlegum forsendum.
Hófið sem haldið er, er annars vegar lokahóf Samtaka Íþróttafréttamanna og hins vegar hóf sem ÍSÍ heldur til að gera upp íþróttir á almanaksárinu gagnvart sínum sérsamböndum. Ólympíufjölskyldan er aðalstyrktaraðili hófsins, en hana skipa Icelandair, Íslandsbanki og Valitor. 



