Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fréttalisti

21.08.2014

Hrafnhildur í undanúrslit í 200m bringu

Hrafnhildur Lúthersdóttir virðist sannarlega vera í feiknaformi en hún synti sig inn í undanúrslitin í 200m bringusundi á EM50 í Berlín í morgun. Tíminn var 2:28,07 sem er hennar besta morgunsund til þessa. Klaus Jürgen-Ohk er í Berlín sem þjálfari og segir vel mega búast við öðru meti frá henni í undanúrslitum seinni partinn. Hrafnhildur er í 10. sæti og syndir því í fyrri riðlinum á annarri braut. Riðillinn ætti að hefjast kl. 17:14 samkvæmt heimasíðu mótsins.
Nánar ...
20.08.2014

Ingibjörg bætti sig í 100m baksundi

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir synti 100m baksund í undanrásum á EM50 í Berlín í morgun og stóð sig með ágætum. Hún synti á 1:04,46 og bætti þar með sinn besta tíma um 2/100 úr sekúndu. Tíminn skilaði henni í 33. sæti en næst keppir hún í 50m baksundi eftir tvo daga. Í fyrramálið syndir Hrafnhildur Lúthersdóttir svo 200m bringusund í undanrásum.
Nánar ...
19.08.2014

Íslandsmet hjá Hrafnhildi í 100m bringusundi

Nú rétt í þessu synti Hrafnhildur Lúthersdóttir í undanúrslitum í 100m bringusundi á EM50 í Berlín. Hrafnhildur gerði sér lítið fyrir og bætti eigið Íslandsmet því hún synti á 1:08,19 en gamla metið var 1:08,57. Stórgóð bæting um tæpa hálfa sekúndu og ljóst að hún er í feiknaformi. Tíminn skilar henni í 10. sæti en efstu 8 keppa til úrslita. Hún er þó á lista yfir varamenn ef ske kynni að einhver skrái sig úr úrslitunum og verður þá númer tvö í röðinni inn.
Nánar ...
19.08.2014

Hrafnhildur í undanúrslit í 100m bringu

Í morgun synti Hrafnhildur Lúthersdóttir 100m bringusund í undanrásum á EM50 í Berlín. Kom hún í mark á tímanum 1:09,12 og hafnaði í 15. sæti, sem dugar henni í undanúrslit sem hefjast seinni partinn. Er þetta þriðji besti tími Hrafnhildar í greininni og einungis um hálfri sekúndu frá Íslandsmeti hennar.
Nánar ...
18.08.2014

Leikar hafnir á YOG og EM50

Í gær hóf Kristinn Þórarinsson keppni á Ólympíuleikum Ungmenna í Nanjing í Kína. Hann synti 100m baksund á tímanum 57,98 en það nægði honum ekki áfram í undanúrslit. Þá synti hann 200m fjórsund á 2:06,90. Ágætur tími sem skilaði Kristni í 15. sæti en 8 efstu synda til úrslita. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir reið á vaðið á EM50 í morgun í Berlín og náði góðum tíma í 50m flugsundi, 28,12 en það er um hálfri sekúndu betri tími en hún var skráð á. Hennar besti tími í greininni er aðeins 0,09 sekúndum betri en sundið í morgun skilaði henni í 33. sæti. Í fyrramálið syndir Hrafnhildur Lúthersdóttir 100m bringusund og Ingibjörg Kristín syndir 100m skriðsund. Þá keppir Sunneva Dögg Friðriksdóttir í 800m skriðsund í Kína á morgun.
Nánar ...
14.08.2014

EM50 og YOG

Nú á næstu dögum hefja fjórir íslenskir sundmenn keppni í landsliðsverkefnum erlendis. Þær Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir, báðar úr SH, halda utan til Berlínar á morgun og munu synda þar á Evrópumeistaramótinu í 50m laug. Ingibjörg syndir 50m flugsund, 50m og 100m skriðsund og 50m og 100m baksund á meðan Hrafnhildur syndir 50m, 100m og 200m bringusund. Klaus Jurgen-Ohk fer sem þjálfari. Keppt er í undanrásum, undanúrslitum og úrslitum en keppni hefst mánudaginn 18. ágúst.
Nánar ...
12.08.2014

Stjarnan í leit að þjálfara

Stjarnan leitar eftir þjálfara til starfa. Nánari upplýsingar veitir Friðbjörn yfirþjálfari - sund@stjarnan.is eða eftir kl. 17 í síma 669-5602. Sjá meðfylgjandi auglýsingu
Nánar ...
06.08.2014

Næsta EM25 verður í desember 2015 í stað janúar 2015

Stjórn LEN, Evrópska sundsamabandsins, hefur ákveðið að færa næsta EM25, sem átti að vera í borginni Netanya í Ísrael dagana 15-18 janúar 2015. Þess í stað verður EM25 haldið í borginni Herzliya í Ísrael dagana 2-6 desember 2015. Ástæðu þessara breytinga segir Paulo Frischnecht eru óhemju margir íþróttaviðburðir sem eiga sér stað í janúar á hverju ári. LEN vilji komast hjá árekstrum við aðrar íþróttagreinar en einnig komast hjá því að trufla skipulag innan eigin raða, en eins og kunnugt er þá hefur verið hefð fyrir því að halda EM25 í desember. Það sem breytti því var innkoma FINA með HM25 í desember annað hvert ár og ósætti milli þessara tveggja samtaka sem SSÍ er aðili að. Það hefur verið óhagganleg afstaða íþróttahreyfingarinnar á Íslandi að blanda ekki pólitík í ákvarðanir um þátttöku Íslands í alþjóðlegri íþróttakeppni. En miðað við aðstæður er óhjákvæmilegt að ræða í stjórn SSÍ, á formannafundi SSÍ í haust og á Sundþingi 2015, hvort það sé verjandi að taka þátt í íþróttakeppni sem fram fer í Ísrael. Við munum leita ráðgjafar ÍSÍ og einnig heyra í frændum okkar annars staðar á Norðurlöndum um afstöðu þeirra um hvort vilji sé að senda íþróttafólk inn á svæði þar sem stríð geysar.
Nánar ...
24.07.2014

Íslandsmótinu í Víðavatnssundi lokið

Í dag fór Íslandsmótið í Víðavatnssundi fram í Nauthólsvík. Coldwater sér um framkvæmd mótsins ásamt Sundsambandi Íslands í samstarfi við Securitas. Mótið gekk mjög vel fyrir sig og var ekki annað að sjá en að sundmenn og aðstandendur væru glaðir með daginn.
Nánar ...

 

 


Fréttasafn eftir mánuðum