Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslands- og unglingameistaramótið í 25m laug 2025

No image selected




Íslands- og Unglingameistaramótið í 25m laug fer fram í Laugardalslaug, Reykjavík dagana 7.-9. nóvember 2025 í samstarfi við Íþróttasamband Fatlaðra. 

 
Skráningafrestur rennur út miðvikudaginn 22. október 2025.

Mótið er keyrt á Swimify mótaforritinu og ber félögum að skila skráningum á lenex formi. 

Skráningum skal skilað með rafrænum hætti á sundmot@iceswim.is ásamt pdf skjali með skráningum til að auðvelda yfirferð. Sérstök athygli er vakin á meðferð undanþáguskráninga, en nánari upplýsingar er að finna í reglugerð mótsins hér að neðan. 
 
Allt starfsfólk, þar á meðal dómarar, getur skráð sig beint í starfsmannaskjalið hér.
Gert er ráð fyrir að keppni í morgunhlutum hefjist kl. 9:30 alla daga og í úrslitum kl. 17:00.

Nánari upplýsingar munu birtast hér á síðunni þegar nær dregur.

Tímaáætlun gæti breyst.



Bein úrslit / Live timing ÍM25 2025

Ráslistar eru ekki staðfestir fyrr en 2 tímum fyrir hvern hluta

Bein vefútsending / Live Stream


Drög að tímaáætlun

Morgunhlutar:
  Upphitun kl. 7:30
  Keppni hefst: kl. 09:00

Kvöldhlutar
  Upphitun kl. 15:00
  Keppni hefst kl. 16:30

Þjálfarar athugið: Tæknifundur fer fram á Teams miðvikudaginn 5. nóvember kl. 12:00

    Starfsfólk skal mæta ekki síðar en 60 mínútum áður en keppni hefst.

    Morgunhlutar: Starfsfólk mætir 8:00
    Kvöldhlutar: Starfsfólk mætir 15:30
     
     
    Starfsfólk og dómarar skrá sig til starfa á mótið beint í starfsmannaskjalið:

    Starfsmannaskráning ÍM25 2025 



    Hér að neðan koma inn úrslit að móti loknu.

    Um mótið gildir reglugerð um Opna Íslands- og Unglingameistaramótið í 25 m laug (ÍM25). Að öðru leiti gilda lög Sundsambands Íslands og almenn ákvæði.

    Sérstök athygli er vakin á 6. grein Almennra ákvæða Sundsambands Íslands um skráningarfrest sem og á verðskrá SSÍ sem er að finna aftast í lögum og reglugerðum SSÍ og má nálgast hér

    Hér að neðan má sjá reglugerðina um ÍM25.

    Reglugerð um Opna Íslands- og Unglingameistaramótið í 25 m laug (ÍM25)

    1. grein

    Íslands- og Unglingameistaramót í 25 m laug skal haldið ár hvert í nóvember. Mótið skal vera opið og auglýst í mótaskrá LEN.

     

    2. grein

    Stjórn SSÍ ákveður fjölda mótsdaga og tilkynnir skipulag mótsins og mótsstað með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara. Þá daga sem mótið fer fram er óheimilt að stofna til annarrar sundkeppni á vegum sambandsaðila SSÍ.

    Heimilt er að halda Íslandsmót fatlaðra í sundi samhliða og í tengslum við ÍM25.

     

    3. grein

    Lágmörk á ÍM25 eru ákveðin af stjórn SSÍ. Lágmörk eru gefin út árlega. Stjórn SSÍ hefur tillögur þjálfaranefndar SSÍ og yfirmanns landsliðsmála til hliðsjónar við ákvörðun sína um lágmörk. Skráningartímar mega ekki vera eldri en 12 mánaða eða frá upphafsdegi ÍM25 árið áður, sbr. almenn ákvæði SSÍ.

    Lágmarkatímar skulu miðast við 25m laug en gildum tímum má ná í 50m laug en skulu skráningartímar þá umreiknaðir skv. staðfestri reiknireglu sem stjórn SSÍ gefur út.

    Sé keppandi með að minnsta kosti 1 lágmark, má viðkomandi bæta við sig allt að tveimur greinum, óháð lágmörkum. Viðkomandi verður að eiga gildan tíma í greinum sem bætt er við. Ekki er hægt að synda 800m og 1500m skriðsund án lágmarka. Aukagreinar eru settar inn samhliða öðrum skráningum og skulu tilkynntar sérstaklega í tölvupósti.

     

    4. grein

    Á mótinu skal keppt í eftirtöldum greinum í karla og kvennaflokkum:

    Skriðsund 
    1500 m skriðsund
    800 m skriðsund
    400 m skriðsund
    200 m skriðsund
    100 m skriðsund
    50 m skriðsund
    Flugsund 
    200 m flugsund
    100 m flugsund
    50 m flugsund
    Fjórsund
    400 m fjórsund
    200 m fjórsund
    100 m fjórsund
    Bringusund 
    200 m bringusund
    100 m bringusund
    50 m bringusund
    Baksund 
    200 m baksund
    100 m baksund
    50 m baksund
    Boðsund (bein úrslit) 
    4x50 m fjórsund
    4x100 m fjórsund
    4x200 m skriðsund
    4x100 m skriðsund
    4x50 m fjórsund, kynblandað (2 karlar + 2 konur)
    4x50 m skriðsund, kynblandað (2 karlar + 2 konur)

     

    5. grein

    Undanrásir og úrslit á Íslandsmeistaramótinu fara fram í 50m, 100m, 200m og 400m greinum og synda 6 eða 8 keppendur til úrslita sem bestum tíma ná í undanrásum en þó aldrei fleiri en tveir erlendir ríkisborgarar í hverri grein. Í 800m og 1500m greinum fara fram bein úrslit þannig að hraðasti riðill syndir í úrslitahluta en aðrir riðlar í undanrásahluta mótsins.

    Keppt er í boðsundum í beinum úrslitum í lok hvers keppnishluta.

    Ekki er heimilt að fella niður undanrásir þó fjöldi keppenda fylli einungis einn riðil.

    Unglingameistaramótið fer fram í undanrásum á sama hátt. 800 m og 1500 m greinar eru syntar í beinum úrslitum. Boðsund eru ekki hluti af Unglingameistaramótinu.

     

    6. grein

    Verðlaun eru veitt með tvennum hætti. Annars vegar eru veitt verðlaun í opnum flokkum karla og kvenna fyrir fyrstu þrjú sætin í hverri grein á mótinu og hins vegar eru veitt verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í unglingaflokki. Verðlaunaafhending fer fram í úrslitahluta.
    Einungis íslenskir ríkisborgarar geta hlotið titilinn Íslandsmeistari og veita skal sérstök verðlaun í keppni um fyrstu þrjú sætin í keppni um Íslandsmeistaratitil keppi erlendir ríkisborgarar á mótinu.
    Erlendir ríkisborgarar geta hlotið titilinn Unglingameistari að því tilskyldu að viðkomandi keppi fyrir íslenskt félag.

     

    7. grein

    Bikar skal veittur þeim íslenska kvenmanni er besta afrek vinnur á mótinu samkvæmt gildandi stigatöflu FINA.

    Bikar skal veittur þeim íslenska karlmanni er besta afrek vinnur á mótinu samkvæmt gildandi stigatöflu FINA.

     

    8. grein

    Starfsmannafund eða -fundi skal halda samkvæmt nánari auglýsingu fyrir upphaf móts/mótshluta.

    September 2022