RIG - Eitt mótsmet í viðbót, stigahæstu sundin viðurkennd og samningar um einstaklingsstyrki undirrituð
Lokahluta Reykjavíkurleikanna (RIG) lauk í kvöld eftir úrslitahluta sem einkenndist af mikilli spennu og sekúndubrotum milli verðlaunasæta.
Guðmundur Leo Rafnsson (ÍRB) hélt áfram sinni frábærri frammistöðu og bætti mótsmetið sitt í 100m baksundi frá því í morgun. Hann kom í bakkann á 56.84, og bætti þar með metið sitt um 0.37 síðan í morgun. Virkilega glæsilegt sund hjá honum.
Í lok hlutans voru viðurkenndir þeir fimm sundmenn sem áttu stigahæstu sundin um helgina. Í fimmta sæti var Vala Dís Cicero (SH) sem fékk 743 stig og í fjórða sæti var Guðmundur Leo Rafnsson (ÍRB) sem fékk 748 stig. Thomas Beeley (Aberdeen ASC) var í þriðja sæti þar sem hann fékk 760 stig. Snorri Dagur Einarsson (SH) var í öðru sæti með 764, og í fyrsta sæti var Britta Koehorst (WVZ) með 840 stig. Til hamingju með þessi frábæru afrek!
Áður en mótinu lauk formlega skrifuðu þrír sundmenn undir samninga um einstaklingsstyrki SSÍ, sem sambandið fékk úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ. Þeir sem voru viðstaddir til að undirrita samninga voru þeir Snorri Dagur Einarsson (SH), Birnir Freyr Hálfdánarsson (SH) og Guðmundur Leo Rafnsson (ÍRB), ásamt þjálfurum sínum. Einnig fá Einar Margeir Ágústsson (ÍA) og Snæfríður Sól Jórunnardóttir (Aalborg) úthlutað styrk úr sjóðnum, en voru ekki til staðar við undirritun samninganna að þessu sinni.
Sigurvegarar dagsins frá Íslandi í kvöld voru eftirfarandi:
- Ylfa Lind Kristmannsdóttir (Reykjavík) vann 50m baksund kvenna og 200m baksund kvenna
- Snorri Dagur Einarsson (SH) vann 50m bringusund karla
- Jóhanna Elín Guðmundsdóttir (SH) vann 50m flugsund kvenna
- Denas Kazulis (ÍRB) vann 50m skriðsund karla
- Eva Margrét Falsdóttir (ÍRB) vann 400m skriðsund kvenna
- Hólmar Grétarsson (SH) vann 200m fjórsund karla
- Guðmundur Leo Rafnsson (ÍRB) vann 100m baksund karla
- Birgitta Ingólfsdóttir (SH) vann 100m bringusund kvenna
- Arnór Egill Einarsson (SH) vann 200m bringusund kvenna
- Sólveig Freyja Hákonardóttir (SH) vann 200m flugsund kvenna
- Vala Dís Cicero (SH) vann 100m skriðsund kvenna
- Ýmir Chatenay Sölvason (SH) vann 200m skriðsund karla
Reykjavíkurleikarnir 2026 fara því í sögubækurnar sem afar vel heppnað mót, með frábærri þátttöku, spennandi keppni og fjölmörgum glæsilegum afrekum í Laugardalslaug. SSÍ þakkar öllum sem komu að mótinu - sundmenn, þjálfarar, sjálfboðaliðar, körfuberar, tæknimenn, dómarar, mótsstjórar og svona mætti lengi telja. Takk!
Myndir má finna á Flickr síður Sundsambandsins: https://www.flickr.com/photos/203795150@N03/

