Beint á efnisyfirlit síðunnar

EM25: Tvær bætingar í morgun!

06.12.2025
Fimmti dagur Evrópumeistaramótsins í sundi hófst í morgun, en það voru sprettirnir sem tóku upp megnið af dagskránni í dag. Tveir sundmenn Íslands náðu að bæta sig í sínum greinum; Ýmir Chatenay Sölvason synti 50 metra skriðsund á tímanum 22.62 sem er bæting á hans besta tíma um 0.07 sekúndur, og Hólmar Grétarsson synti 200 metra flugsund og bætti sig um 0.34 sekúndur þegar hann kom í bakkann á 1:59.30.
Dagurinn hófst með 50 metra baksundi þegar Guðmundur Leo Rafnsson stakk sér til sunds, og kláraði hann á 25.24 og hafnaði í 42. sæti.
Birgitta Ingólfsdóttir tók 50 metra bringusund á 31.54 og hafnaði í 38. sæti.
Þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero syntu saman 50 metra skriðsund, þar sem Jóhanna Elín kláraði í bakkann á 25.13 og náði 32. sæti, meðan Vala Dís synti aðeins 0.01 frá sínu persónulega meti, á 25.67 og hafnaði þar með í 38. sæti.
Ýmir Chatenay Sölvason og Símon Elías Statkevicius syntu þar næst sömu grein, og fór þar Ýmir Chatenay á 22.62, bætingu á sínum besta tíma um 0.07 sekúndur, og hafnaði í 55. sæti. Símon kláraði í bakkann á 21.87, og hafnaði í 39. sæti.
Síðast en alls ekki síst synti Hólmar Grétarsson í sinni fyrstu einstaklingsgrein, 200 metra flugsund. Þar bætti hann sinn besta tíma, fór á 1:59.30, 0.34 sekúnda bæting, sem kom honum í 30. sæti. Þess má geta að hann kemur á mótið eftir að hafa nýlokið keppni á Norðurlandameistaramótinu í Reykjavík, þar sem hann nældi sér í silfur í sömu grein.
Síðasti dagur EM25 fer fram á morgun, en þá munu stelpurnar taka boðsundið 4x50 metra fjórsund, og Hólmar Grétarsson 400 metra fjórsund. Það mun síðar koma í ljós hvort strákarnir syndi 4x50 metra fjórsund boðsundið, en eftir veikindi Snorra Dags Einarssonar þarf að ákveða hver getur tekið bringusundið í hans stað.
Sýnt verður frá síðasta degi EM25 í Lublin, Póllandi á morgun á RÚV 2, en útsending hefst kl. 09:00.
Myndir má finna hér: Flickr
Til baka