Beint á efnisyfirlit síðunnar

Snæfríður Sól aftur í undanúrslit, nú í 100m skriðsundi, á EM25

05.12.2025

Fjórði dagur Evrópumeistaramótsins í Lublin, Póllandi hófst í morgun, og syntu fimm keppendur fyrir Íslands hönd, en það var hún Snæfríður Sól Jórunnardóttir sem stóð upp úr og synti sig inn í undanúrslit í 100 metra skriðsundi. Hún synti á sínum besta tíma á þessu tímabili, 53.43, og er þá með 16. besta tímann inn í undanúrslit í kvöld sem hefjast kl. 19:36. Hægt er að fylgjast með á vefspilara RÚV.

Fyrst Íslendinganna í morgun var hún Vala Dís Cicero sem stakk sér til sunds í 100 metra skriðsundi. Þar synti hún á 55.25, sem er hennar besti tími á tímabilinu, og hafnaði í 40. sæti.

Þeir Birnir Freyr Hálfdánarson og Guðmundur Leo Rafnsson syntu sín sund hlið við hlið þegar þeir kepptu í sama riðlinum í 100 metra skriðsundi, en eftir æsispennandi keppni þeirra á milli kláraði Guðmundur Leo á 49.67, í 63. sæti, og Birnir Freyr á 50.25, í 68. sæti.

Ýmir Chatenay Sölvason var síðastur Íslendinga til að keppa í þessum hluta, en hann synti einnig 100 metra skriðsund og synti á tímanum 49.01, og endaði þar með í 60. sæti.

Næst síðasti dagur EM25 hefst á morgun, en þar munu 8 Íslendingar keppa í 5 mismunandi greinum.

Guðmundur Leo Rafnsson - 50 metra baksund

Birgitta Ingólfsdóttir - 50 metra bringusund

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Vala Dís Cicero og Snæfríður Sól Jórunnardóttir - 50 metra skriðsund

Símon Elías Statkevicius og Ýmir Chatenay Sölvason - 50 metra skriðsund

Hólmar Grétarson - 200 metra flugsund

Bein útsending hefst kl. 09:00 á RÚV 2 á morgun.

Myndir frá mótinu er hægt að finna hér: Flickr

Myndir með frétt

Til baka