Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslendingar stungu sér enn og aftur til sunds í morgun á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í Lublin, Póllandi.

04.12.2025

Íslendingar stungu sér enn og aftur til sunds í morgun á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í Lublin, Póllandi.

Það var boðsundssveitin sem stóð upp úr í þessum hluta í 4x50m skriðsundi blandaðri sveit, en þá tókst þeim Símon Elías Statkevicius, Ými Chatenay Sölvasyni, Jóhönnu Elínu Guðmundsdóttur og Völu Dís Cicero að bæta Íslandsmetið sem var sett á HM25 árið 2024. Þau kláruðu á 1:33.36, og bættu þar með metið um nærri því sekúndu. Símon Elías, sem tók fyrsta sprett sveitarinnar, synti undir Íslandsmeti í 50m skriðsundi karla, en það er þó ekki gilt þar sem þetta var blönduð sveit. Þó að metið sé ekki gilt lofar það góðu fyrir laugardaginn, þegar Símon Elías keppir sjálfur í 50m skriðsundi.

Fyrst var þó hún Jóhanna Elín Guðmundsdóttir í 100m flugsundi, þar sem hún synti á 1:00.99 og hafnaði í 23. sæti.

Næst þar á eftir stakk Birnir Freyr Hálfdánarson sér til sunds í sömu grein, 100m flugsundi, og kláraði hann í bakkann á 52.99. Hann hafnaði þar með í 43. sæti meðal sterkustu keppenda Evrópu, í gríðarlega vinsælli grein.

Birgitta Ingólfsdóttir tók við þegar hún synti 200m bringusund og stórbætti sitt persónulega met síðan á Bikarkeppni SSÍ 2024, en hún synti á 2:31.31, sem er bæting um rúmar 6 sekúndur.

Guðmundur Leo Rafnsson synti síðustu einstaklings grein Íslendinga í þessum morgunhluta, 100m baksund, þar sem hann kláraði sundið á 53.38 og endaði í 33. sæti.

Í kvöld keppir Snæfríður Sól Jórunnardóttir í úrslitum í 200m skriðsundi, en það sund hefst kl. 19:20 á íslenskum tíma. Nú þegar hefur hún bætt sitt eigið met í greininni í undanúrslitum, og verður æsispennandi að sjá hvernig henni gengur í úrslitum greinarinnar.

Myndir eftir Simone Castrovillari má nálgast á Flickr síðu Sundsambandsins: https://www.flickr.com/photos/203795150@N03/albums/72177720330706126/


Til baka