Snæfríður Sól áfram í undanúrslit í 200m skriðsundi
Á öðrum degi Evrópumeistaramótsins tryggði Snæfríður Sól Jórunnardóttir sér sæti í undanúrslitin í kvöld þegar hún synti 200m skriðsund á 1:55.04 og hafnaði í 6.sæti.
Glæsilegur morgunhluti hjá íslenska liðinu byrjaði hinsvegar á því að Birnir Freyr Hálfdánarson stakk sér til sunds í 100m fjórsundi á nýju persónulegu meti 55.77, og bætti þar með tíma sinn um 0.04 sekúndur. Flott sund og hann hafnaði í 37. sæti.
Ýmir Chatenay Sölvason synti þar á eftir 200m skriðsund, og hafnaði í 61. sæti meðal gríðarlega sterkra keppenda. Hann kláraði í bakkann á 1:47.53, 0.03 sekúndum hraðar en Siim Keskula frá Eistlandi, en þeir tveir hafa reglulega barist um sigur sín á milli síðan þeir kynntust á Norðurlandameistaramóti ungmenna fyrir þremur árum.
Þá var komið að 200m skriðsundi kvenna þar sem Snæfríður synti sitt glæsilega sund í síðasta riðli greinarinnar og komst áfram í undandúrslit í kvöld. Í sama riðli synti hún Vala Dís Cicero sitt fyrsta einstaklingssund á mótinu. Hún kláraði sundið á 2:00.99, og hafnaði þar með í 33. sæti.
Morgunhlutanum lauk með boðsundi, 4x50m fjórsund blandað, en þar syntu þau Guðmundur Leo Rafnsson, Birgitta Ingólfsdóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Símon Elías Statkevicius. Lokatími þeirra var 1:44.60, og hafnaði liðið þar með í 16. sæti.
Eins og áður var nefnt, þá stingur Snæfríður sér aftur til sunds í kvöld, og keppir þar um sæti í úrslitum í 200m skriðsundi. Það verður spennandi að sjá hvort hún nái alla leið inn í úrslit!
Myndir er hægt að finna hér: Flickr
