Beint á efnisyfirlit síðunnar

EM25: Tvö Íslandsmet í Lublin - 16 ára gamalt met féll

02.12.2025

Lið Íslands stakk sér til sunds á fyrsta hluta Evrópumeistaramótsins í 25 metra laug núna í morgun. Mótið fer fram í Lublin, Póllandi, og voru það 6 sem stungu sér til sunds, ásamt boðsundssveit kvenna.

Það sem stóð upp úr að þessu sinni voru tvö Íslandsmet, bæði sett í boðsundi í lok hlutans - annað metið var 16 ára gamalt!

En fyrst af stað var hún Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, sem synti 50m flugsund og hafnaði þar í 34. sæti á tímanum 27.13.

Næst þar á eftir voru þeir Símon Elías Statkevicius og Birnir Freyr Hálfdánarson í 50m flugsundi. Þar fór Birnir Freyr á 24.00, aðeins 0.20 frá sínu persónulega besta, og hafnaði í 46. sæti. Rétt á eftir honum var Símon Elías í 47. sæti á 24.11.

Birgitta Ingólfsdóttir synti síðan sitt fyrsta sund á EM25, 100m bringusund, þar sem hún synti á 1:07.63, aðeins 0.07 sekúndum frá sínum besta tíma (1:07.56).

Snorri Dagur Einarsson synti einnig 100m bringu, og náði þar glæsilegum árangri með nýju persónulegu meti, 58.40, og fór þar með 0.17 undir sínum besta tíma síðan á Evrópumeistaramótinu í Otopeni 2023. Hann var í 32. sæti á meðal sterkra keppenda, og tókst honum þetta þrátt fyrir veikindi.

Guðmundur Leo Rafnsson stakk sér til sunds í 200m baksundi, sinni fyrstu grein á mótinu, og synti þar á 1:56.00.

Boðsundssveit Íslands kláraði þetta með framúrskarandi árangri og tveimur Íslandsmetum, en sveitina skipuðu þær Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Vala Dís Cicero og Birgitta Ingólfsdóttir. Fyrsta metið féll þegar Snæfríður Sól synti undir meti Ragnheiðar Ragnarsdóttur, sem sett var 2009, en Snæfríður kom í bakkann á 24.68, bæting á fyrra meti um heilar 0.26 sekúndur.

Því næst tóku þær Jóhanna, Vala Dís og Birgitta við og kláruðu þær greinina á glæsilegu nýju Íslandsmeti í 4x50m skriðsundi kvenna, á tímanum 1:40.61. Það er bæting á metinu sem sveit Íslands setti í Glasgow 2019, skipuð af Jóhönnu Elínu, Ingibjörgu Kristínu Jónsdóttur, Snæfríði Sól og Eygló Ósk Gústafsdóttur (1:40.94).

Frábær byrjun hjá Íslenska liðinu hérna í Lublin. Á morgun synda þau Birnir Freyr Hálfdánarson (100m fjórsund), Ýmir Chatenay Sölvason (200m skriðsund), Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Vala Dís Cicero (200m skriðsund), og að lokum má búast við æsispennandi sundi boðsundsveitar Íslands í 4x50m blönduðu fjórsundi.

Hægt er að fylgjast með gangi liðsins á RÚV, en myndir af mótinu eftir Simone Castrovillari er hægt að nálgast í fullum gæðum á Flickr síðu Sundsambandsins hérna.

Til baka