Snæfríður og Freyja bikarmeistarar í Danmörku
Þær Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Freyja Birkisdóttir urðu í dag bikarmeistarar í Danmörku ásamt liði sínu Aalborg Svømmeklub eftir æsispennandi og harða keppni gegn liðum Hovedstadens sem er stærsta Sundfélagið í Danmörku og AGF sem staðsett er í Árósum. Lið Aalborgar fékk samtals 53.435 stig og tryggðu þau sér bikarmeistaratitilinn annað árið í röð.
Freyja synti 100m og 200m bringusund og bætti tíma sína í þeim greinum. Hún synti einnig 800m skriðsund og 400 fjórsund. Snæfríður sigraði í 100m og 200m skriðsundi, og var rétt við íslandsmetið í 400m skriðsundi. Hún synti einnig 100m fjórsund og var lykilmanneskja í boðsundssveit Aalborgar
Þær Snæfríður og Freyja æfa saman með liði Aalborg, en Snæfríður mun keppa fyrir hönd Íslands á Evrópumeistaramótinu í Lublin, Póllandi í næsta mánuði og Freyja kemur til Íslands og tekur þátt í Norðurlandameistaramótinu sem haldið er á Íslandi að þessu sinni.
