Fleiri Íslandsmet og sterk frammistaða hjá landsliðsmönnum á fyrsta úrslitakvöldi ÍM25
Fyrsta úrslitakvöld Íslands- og unglingameistaramótsins í 25 metra laug fór fram í kvöld, þar sem áhorfendur fengu að upplifa spennandi sund, ný Íslandsmet og glæsilegar frammistöður frá fremstu sundmönnum landsins.
Það voru þeir Birnir Freyr Hálfdánarson (SH) og Símon Elías Statkevicius (SH) sem settu Íslandsmet kvöldsins, og bæði metin höfðu þeir átt áður. Birnir synti 100m flugsund á 52,41 sekúndum, en fyrra met hans frá ÍM25 í fyrra var 52,51. Símon Elías synti 50m skriðsund á 21,75 sekúndum, sem er bæting á hans eigin meti (21,93) frá ÍM25 2024.
Það voru einnig sett Íslandsmet fatlaðra í kvöld og setti Róbert Ísak Jónsson (SH) Íslandsmet í flokki S14 í 100m bringusundi. Þá er einnig vert að nefna að Snævar Örn Kristmannsson (Breiðablik) setti Íslandsmet í 100m flugsundi í flokki S19 í undanrásum í morgun.
Kvöldið einkenndist af sterkum sundum frá mörgum af landsliðsmönnum Íslands, og var ljóst að undirbúningur fyrir Evrópumeistaramótið í 25m laug (EM25) í desember er á réttri leið. Til þessa hafa 9 sundmenn tryggt sér sæti á EM25 í Póllandi: Snæfríður Sól Jórunnardóttir (Aalborg), Snorri Dagur Einarsson (SH), Einar Margeir Ágústsson (ÍA), Símon Elías Statkevicius (SH), Guðmundur Leo Rafnsson (ÍRB), Birgitta Ingólfsdóttir (SH), Jóhanna Elín Guðmundsdóttir (SH), Birnir Freyr Hálfdánarson (SH) og Vala Dís Cicero (SH). Til samanburðar voru sex Íslendingar í EM-hópnum árið 2023.
Íslandsmeistarar kvöldsins:
- 100m fjórsund kvk: Birgitta Ingólfsdóttir (SH)
- 100m fjórsund kk: Fannar Snævar Hauksson (ÍRB)
- 400m skriðsund kvk: Vala Dís Cicero (SH)
- 400m skriðsund kk: Magnús Víðir Jónsson (SH)
- 50m baksund kvk: Ylfa Lind Kristmannsdóttir (ÍBR)
- 100m flugsund kk: Birnir Freyr Hálfdánarson (SH) - Íslandsmet
- 200m flugsund kvk: Nadja Djurovic (SH)
- 200m baksund kk: Guðmundur Leo Rafnsson (ÍRB)
- 200m bringusund kvk: Eva Margrét Falsdóttir (ÍRB)
- 100m bringusund kk: Snorri Dagur Einarsson (SH)
- 50m skriðsund kvk: Jóhanna Elín Guðmundsdóttir (SH)
- 50m skriðsund kk: Símon Elías Statkevicius (SH) - Íslandsmet
Í boðsundum bætti SH enn frekar við sigurflóðið sitt, þar sem liðin þeirra unnu bæði 4x200m skriðsund karla og kvenna. Kvennasveit SH skipuðu Nadja Djurovic, Vala Dís Cicero, Birgitta Ingólfsdóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, en karlasveitina skipuðu Ýmir Chatenay Sölvason, Bergur Fáfnir Bjarnason, Magnús Víðir Jónsson og Birnir Freyr Hálfdánarson.
Keppni heldur áfram á morgun, laugardag, með undanrásum frá kl. 9:00 og úrslitum frá kl. 16:30.
Fylgjast má með úrslitum í beinni á Swimify LiveTiming og í útsendingu á sund.live.

