Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sterk byrjun á ÍM25 - tvö met sett í morgun

07.11.2025

Fyrsti hluti Íslands- og unglingameistaramótsins í 25 metra laug fór fram í Laugardalslaug í morgun, föstudaginn 7. nóvember, þar sem stemmingin í húsinu var rafmögnuð frá fyrstu stungu. Keppnin hófst af krafti með spennandi sundum, fjöldamörgum góðum bætingum og tveimur nýjum metum.

Það var Denas Kazulis (ÍRB) sem setti fyrsta met mótsins þegar hann bætti 4 ára gamalt unglingamet í 50m skriðsundi. Denas synti á 22,76 sekúndum og tók þar með metið af Símoni Statkevicius (23,82) sem hafði staðið síðan 2021. Síðar um morguninn fylgdi kvennasveit SH eftir með frábæru sundi í 4x50m fjórsundi, þegar þær settu nýtt Íslandsmet með tímanum 1:53,52, en fyrra metið, einnig í eigu SH, hafði staðið síðan 2011 (1:56,23). Kvennasveitina skipuðu Vala Dís Cicero, Birgitta Ingólfsdóttir, Nadja Djurovic, og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir.

Keppnin í morgun var fjölbreytt og spennandi, með greinum eins og 100m fjórsundi, 400m skriðsundi, 100m flugsundi og 50m skriðsundi, bæði karla og kvenna. Margt ungt og efnilegt sundfólk lét til sín taka og sigruðu í unglingaflokki, þar á meðal Auguste Balciunaite (SH) í 100m fjórsundi og 200m bringusundi, Vala Dís Cicero (SH) í 400m og 50m skriðsundi, og Denas Kazulis (ÍRB) sem tryggði sér unglingameistaratitil með metinu í 50m skriðsundi.

Í 4x50m fjórsund boðsundunum sýndi Sundfélag Hafnarfjarðar yfirburði þar sem bæði kvenna- og karlasveitir félagsins unnu til gullverðlauna. Kvennasveitin tryggði sér jafnframt Íslandsmetið, á meðan karlasveit SH náði fyrsta sætinu á undan ÍRB og Reykjavík.

Einnig var keppt í flokki fatlaðra, þar sem margir stóðu sig afar vel. Meðal sigurvegara voru Snævar Örn Kristmannsson (Breiðablik) í 100m fjórsundi, Thelma Björg Björnsdóttir (ÍBR) í 400m skriðsundi og Róbert Ísak Jónsson (SH) í bæði 100m flugsundi og 100m bringusundi.

Keppni heldur áfram í kvöld, þar sem úrslitahlutinn byrjar kl 16:30 í Laugardalslauginni. Bein útsending frá úrslitahlutanum verður á RÚV2, einnig er hægt að fylgjast með úrslitum í beinni á Swimify LiveTiming og í streymi á sund.live.

Myndir með frétt

Til baka