Íslands- og unglingameistaramótið í 25 metra laug fer fram í Laugardalslaug 7.–9. nóvember
Íslands- og unglingameistaramótið í 25 metra laug (ÍM25) fer fram 7.–9. nóvember í Laugardalslaug í Reykjavík, í samstarfi við Íþróttasamband Fatlaðra. Mótið markar hápunkt 25m tímabilsins fyrir flesta íslenska keppendur og verða margir af fremstu sundmönnum landsins meðal keppenda.
Keppni hefst á föstudegi og stendur yfir alla helgina. Undanrásir fara fram á morgnana og hefjast kl. 9:00, en úrslitahlutar hefjast kl. 16:30.
Að þessu sinni taka 176 keppendur þátt frá félögum alls staðar að af landinu - SH, ÍBR, ÍRB, Óðinn, Breiðablik, Afturelding, Fjörður, UMFB og ÍA. Mótinu stýra Kristín Guðmundsdóttir (ÍF), Karl Georg Klein og Fríða Kristín Jóhannesdóttir (SH) og Helgi Þór Þórsson (Ægir). Yfirdómarar verða Viktoría Gísladóttir, Ingibjörg Ýr Pálmadóttir og Sigurþór Sævarsson.
Keppt verður bæði í opnum flokki og unglingaflokki, og verða verðlaun fyrir besta afrek karla og kvenna afhent í lok úrslitahluta á sunnudeginum. Þá verða einnig veitt verðlaun fyrir Íslandsmet í opnum flokki, þar sem 50.000 kr. verðlaun eru í boði fyrir hvert nýtt met í einstaklingsgreinum. Verðlaun í flokki fatlaðra verða afhent í morgunhlutum, strax í kjölfar unglingameistara hverrar greinar.
Mótið er jafnframt síðasta tækifæri sundmanna til að tryggja sér sæti á Evrópumeistaramótið í 25m laug (EM25) sem fer fram í Póllandi 2.-7. desember, og á Norðurlandameistaramótið (NM) sem haldið verður á Íslandi 28.–30. nóvember. Að loknu ÍM25 verða landsliðshóparnir fyrir bæði EM25 og NM kynntir opinberlega, samhliða verðlaunaafhendingu fyrir bestu afrek helgarinnar. Nú þegar hafa 9 sundmenn náð lágmörkum á EM25, og 11 sundmenn tryggt sér sæti í NM-liðið.
Það verður svaka spennandi að fylgjast með okkar fremstu og efnilegustu sundmönnum etja kappi í Laugardalslauginni um Íslandsmeistaratitla, bætingar og sæti í landsliðshópum!
Fyrir áhugasama verður hægt að fylgjast með keppni í gegnum Swimify LiveTiming á vef og í appi, þar sem birtir verða ráslistar og úrslit jafnóðum, og í beinni útsendingu á sund.live. Allir úrslitahlutar verða einnig sýndir beint á RÚV2.
Live Timing/Bein Úrslit: https://live.swimify.com/competitions/islands-og-unglingameistaramotid-i-25m-laug-2025-11-07/events/1/1
Live Stream/Bein Útsending: https://www.sund.live/channel?name=im25
