Spennan í hámarki á Bikar 2025 - SH-ingar eru bikarmeistarar
Það var líf og fjör í Ásvallalaug laugardaginn 27. september þegar fyrsta mót tímabilsins, Bikarkeppni SSÍ, fór fram. Sundfólk var komið úr sumarfríi, liðsfélagar sameinaðir á ný, og andrúmsloftið var rafmagnað. Fjögur lið kepptu í fyrstu deild á meðan Sundfélag Akraness (ÍA) tók þátt í annarri deildinni.
Mótið var með algjörlega nýju sniði í ár: ógildingar veita ekki lengur tækifæri til að senda annan sundmann í greinina, heldur nú er ógilding samasem 0 stig. Þar að auki fór allt mótið fram á einum degi í stað tveggja, og því er mótið keyrt á meiri hraða en áður. Stigakerfið var einnig breytt: í stað þess að hvert sund fái stig samkvæmt World Aquatics fékk hver grein 9 stig fyrir fyrsta sæti, 7 fyrir annað, 6 fyrir þriðja og svo framvegis - nema í boðsundsgreinum þar sem stigin voru tvöföld og dramatíkin því enn meiri í þeim greinum. Að lokum var einnig breytt því að karla- og kvennalið keppa saman að bikarnum í stað þess að vera að safna stigum í sitthvorulagi.
Bikar - Fyrri hluti
Fyrri hluti mótsins hófst með látum á 4x50m fjórsund blönduðu boðsundi þar sem Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) sýndi strax af hverju þau eru ríkjandi bikarmeistarar. Þau fylgdu því eftir með sigurgöngu í nokkrum greinum, þar til baksundið setti nýjan tón.
Guðmundur Leo, úr ÍRB, tók gullið í 50m baksundi karlamegin og Ylfa Lind tryggði Reykjavík sigur í 50m baksundi kvenna. Þarna mátti sjá að önnur lið ætluðu ekki að láta SH ganga ósnortna í gegnum mótið.
Spennan hélt áfram í einstaka greinum þar sem hundraðshlutar réðu úrslitum. Í 100m fjórsundi kvenna sigraði Birgitta (SH) með 1:04,27, aðeins 0,10 sekúndum á undan Evu Margréti (ÍRB). Í 50m skriðsundi karla var munurinn ekki minni; Símon Elías sigraði á 22,94 en Denas (ÍRB) var ekki langt á eftir með 23,10.
Guðmundur Leo lét ekki staðar numið. Hann tryggði sér önnur 9 stig fyrir ÍRB í 200m baksundi með yfirveguðu sundi á 1:59,71. Þó hann hafi verið nokkrum sekúndum frá sínum besta tíma (1:55,27) var þetta enn eitt stigasafnið fyrir ÍRB og skýr skilaboð um að þau ætluðu sér stóra hluti.
Fyrri hlutinn endaði svo á 4x100m skriðsunds boðsundum þar sem SH sýndi yfirburði enn og aftur. Karlaliðið tók bæði fyrsta og þriðja sætið, á meðan konurnar tryggðu sér fyrsta og annað sætið. Það var ljóst að liðið ætlaði sér að halda bikarnum - en mótið var langt frá því að vera búið.
Staðan eftir fyrri hlutann: 1. deild: SH 319 stig, ÍRB 222, Reykjavík 170, Breiðablik 98. 2. deild: ÍA með 180 stig - nánast fullkomin frammistaða, aðeins tvö sund fengu engin stig vegna engrar skráningar eða ókláraðs sunds.
Bikar - Seinni hluti
Seinni hluti mótsins hófst líka með boðsundi, þá 4x50m skriðsund blönduðu boðsundi. SH kom sá og sigraði þar - þau nældu sér í fyrsta og annað sætið, á meðan að ÍRB náði öðru sætinu. SH-1 sveitin, sem var í fyrsta sæti, var meiri að segja aðeins um 2.5 sekúndu frá Íslandsmetinu í greininni.
200m flugsund karla og kvenna sá SH-inga taka fyrstu tvö sætin með yfirburðum: Hólmar og Birnir karlamegin um 10 sekúndum á undan næsta manni, og Sólveig og Nadja kvennamegin rúmum 5 sekúndum á undan næstu konu.
Guðmundur Leo hélt áfram og tók síðustu baksundsgreinina þegar hann synti á 56.26, rúmri sekúndu á unda Berg Fáfni (SH). Auðvelt sund hjá honum og þar með tók hann allar þrjár baksundsgreinarnar fyrir ÍRB (og bætti við sig 400m skriðsund í loks dags). Ylfa Lind gerði slíkt hið sama fyrir Reykjavík og tók allar þrjá baksundsgreinarnar kvennamegin.
Eva Margrét (ÍRB) tók fjórsundið í sínar hendur þegar hún vann 200m fjórsundið auðveldlegat. Hún hafði einnig unnið 400m fjórsundið fyrr í dag - þessi stig skipta máli fyrir ÍRB.
50m flugsund var æsispennandi þegar Birnir Freyr (SH) kom í mark á 24.69 og tók því 9 stig fyrir SH. Hann var aðeins tveimur hundraðshlutum á undan Símon Elías (SH) sem kom í mark á 24.71, og þar rétt á eftir var Fannar Snævar (ÍRB) á 24.94.
Þreytan var aðeins farin að láta sjá sig í þessum seinni hluta en það náðu þó allir að vera til staðar og hvetja sín lið þegar kom að síðustu greinunum - 4x50m fjórsund boðsund. Þar kom SH-1 og vann bæði karla- og kvennaflokkinn á undan ÍRB sem varð í öðru sæti í báðum flokkum.
Staðan eftir seinni hlutann og þar með lokaniðurstaðan: 1. deild: SH 629 stig, ÍRB 447, Reykjavík 336, Breiðablik 203. 2. deild: ÍA með 360 stig
Eftir skemmitilega keppni urðu SH-ingar Bikarmeistarar 2025 í 1.deild, og ÍRB enduðu í öðru sæti. ÍA eru sigurvegarar í 2.deild.
Við óskum sundfólkinu og liðunum til hamingju með árangurinn um helgina. Eins þökkum við starfsfólki, dómurum og sjálfboðaliðum fyrir þeirra framlag, án þeirra væri þetta ekki framkvæmanlegt. Að lokum viljum við þakka Sundfélagi Hafnarfjarðar fyrir samstarfið við framkvæmd mótsins.
Samantekt
2025-2026 sundtímabilið hófst á Bikarkeppni SSÍ með miklum látum: nýjar reglur þvinguðu liðin til að synda fleiri greinar á stuttum tíma með ekkert öryggisnet þegar kemur að ógildingum, og ótrúleg barátta var í einstaka greinum. SH sat í sterkri stöðu eftir fyrri hlutann, en sundmenn eins og Guðmundur Leo, Denas og Eva Margrét úr ÍRB gerðu þeim það ekki auðvelt: enginn leikur er unninn fyrr en síðustu metrarnir eru syntir. SH hélt áfram sterkri sigurgöngu í seinni hlutanum þó að ÍRB gerðu sitt besta til að nappa sem flestum stigum. SH-ingar eru því Bikarmeistarar 2025 í 1.deild og ÍRB í 2.sæti. Sundfélag Akraness (ÍA) eru sigurvegarar í 2.deild.
Hægt að sjá öll úrslit á swimrankings.