Beint á efnisyfirlit síðunnar

Góð byrjun hjá íslenska sundliðinu á Smáþjóðaleikunum í Andorra

27.05.2025

Sundkeppni Smáþjóðaleikanna hófst í morgun með undanrásum og íslenska sundfólkið stóð sig mjög vel.

Alls eiga 13 íslenskir sundmenn sæti í úrslitum dagsins, sem hefjast kl. 17:00 (15:00 að íslenskum tíma).

Í 100 metra skriðsundi kvenna er Snæfríður Sól Jórunnardóttir með besta tímann inn í úrslit, og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir með fjórða besta tímann. Í sömu grein hjá körlum keppa Birnir Freyr Hálfdánarson og Ýmir Chatney Sölvason en þeir eru með fjórða og fimmta besta tímann.

Þá munu þær Nadja Djurovic og Sólveig Freyja synda 200m flugsund, en þar voru ekki syntar undanrásir í morgun. Hólmar Grétarsson synti í morgun 200m flugsund og er með annan besta tímann inn í úrslitin í dag. Ylfa Lind mun keppa í 200m baksundi í úrslitum í dag og þeir Guðmundur Leó og Bergur Fáfnir eru með fyrsta og annan besta tímann inn í úrslitin í dag í 200m baksundi.  Þá fara þær Katja Lilja og Sólveig Freyja 800m skriðsund og Magnús Víðir syndir einnig 800m skriðsund.

Síðustu tvær greinar mótsins í dag eru 4x100m skriðsund karla og kvenna.

Í morgun syntu þær Birgitta Ingólfs og Eva Margrét 50m bringusund og er Birgitta með besta tímann inn í úrslitin  og Eva Margrét með sjötta besta tímann. Úrslitin í þessari grein fara fram á laugardaginn. Andri Ingólfsson synti 800m skriðsund í morgun og var alveg við sinn besta tíma í greininni 8:43,10.

Við hlökkum til að fylgjast með sundfólkinu í dag,

Streymi er hér: https://anoc.tv/sportitem/682b2cc84aca6a1a4da2ddb1

Lifandi úrslit https://gsse-andorra2025.com/en/schedule-and-results/

 

 

Til baka