Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÍM25 hefst á morgun í Ásvallalaug

17.11.2022

Íslands- og Unglingameistaramótið í 25m laug fer fram í Ásvallalaug, Hafnarfirði, helgina, 18.-20. nóvember 2022.

Undanrásir hefjast kl 9:30 alla morgna og úrslitin hefjast kl 16:30.

Mótið er haldið í samstarfi við Íþróttasamband Fatlaðra. Sundfélag Hafnarfjarðar sér um framkvæmd mótsins.

Alls eru 172 keppendur skráðir á mótið.

Mótið er með nýju sniði í ár þar sem krýndir verða unglingameistarar samhliða Íslandsmeistara í opnum flokki. Unglingaflokkur er 17. ára og yngri í kvennaflokki og 18. ára og yngri í karlaflokki.

Undanrásir verða á morgnana og jafnframt er keppt til úrslita í unglingaflokki. Verðlaunaafhending fer fram í úrslitahluta.

Sundmaður og sundkona ársins 2021, þau Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir taka ekki  þátt í mótinu að þessu sinni.  Snæfríður Sól tekur þátt í Bikarkeppni í Danmörku um helgina. En hún og Anton Sveinn undirbúa sig fyrir HM25 sem fram fer í Ástralíu í desember.  Þá geta þeir sundmenn sem  æfa og keppa í USA ekki tekið þátt í mótinu vegna anna í skóla. 

Í lok mótsins verða veittar viðurkenningar fyrir besta afrek í kvenna og karlaflokki samkvæmt gildandi stigatöflu FINA. Einnig verður liðið sem tekur þátt í Norðurlandameistaramótinu í Bergen í desember valið.

Eins og sjá má þá verður mikið um að vera í Ásvallalaug um helgina.

Hægt er að fylgjast með úrslitum hér: úrslit

Einnig verður streymi alla helgina hér : streymi

 

Til baka