Beint á efnisyfirlit síðunnar

Yfirlýsing frá formanni SSÍ

12.12.2016

Í kjölfar fjölmiðlaumræðu og ummæla íþróttamanna á vegum Sundsambands Íslands á Heimsmeistaramótinu í sundi á dögunum vill formaður Sundsambands Íslands koma eftirfarandi á framfæri.

Undirritaður var í hlutverki fararstjóra SSÍ á Heimsmeistaramótinu í Windsor, Kanada sem lauk í gær sunnudag, en var einnig í hlutverki miðlara til helstu fjölmiðla á Íslandi.  Visir.is, Mbl.is og Ruv.is fylgdust vel með árangri okkar Íslendinga á mótinu og nýttu sér augljóslega þær upplýsingar sem sendar voru til þeirra.  Efalaust hefði undirritaður mátt vera betur undirbúinn til þessarar þjónustu, bæði hvað varðar upplýsingar um sundfólkið og ekki síður hefði mátt setja fram skoðanir á árangri með skýrari hætti en gert var í tölvupóstum, Facebook-texta og fréttum á heimasíðu SSÍ. Myndir sem birtar voru á Facebook-síðu og heimasíðu og jafnframt sendar ofangreindum fjölmiðlum til birtingar voru teknar af undirrituðum og sundfólkinu sjálfu en úr þeim unnið af undirrituðum.

Sundsamband Íslands hefur á undanförnum árum átt góð og gjöful samskipti við fjölmiðla á Íslandi og lagt metnað sinn í að upplýsingar sem frá sambandinu koma séu í tengslum við raunveruleikann og hægt að byggja á þeim trúverðugar fréttir.  Við höfum verið sammála um að góðar og trúverðugar upplýsingar geti verið grunnur að góðum fréttum af íþróttinni, en úrvinnsla og endanleg framsetning hlýtur að vera í höndum íþróttafréttamanna sjálfra, án íhlutunar okkar, af neinu tagi. Við höfum einnig fylgst með því hvernig einstakir íþróttafréttamenn og samtök þeirra hafa barist ötullega fyrir réttindum íþróttafólks og verið styrkur fyrir íþróttahreyfinguna í heild.

Í Facebook-færslu sem Aron Örn Stefánsson keppandi á HM25 skrifaði og aðrir íslenskir keppendur hafa tekið undir, kemur fram sú skoðun að íþróttafréttamaður á Visir.is hafi skrifað „lítillækkandi og niðrandi“ texta um sundfólkið sem keppti á HM25.  Eftir að hafa farið yfir allar greinar sem hafa birst í ofangreindum fjölmiðlum þremur um HM25, fær undirritaður ekki séð að nokkurs staðar sé skrifað á lítillækkandi eða niðrandi hátt um sundfólkið eða árangur þess, einungis teknar staðreyndir og notaður texti sem undirritaður sendi til þessara fjölmiðla.

Það hefur ekki verið háttur SSÍ að fara með neikvæða umræðu á samfélagsmiðla eða annað. Frekar höfum við sest niður með viðkomandi og rætt mál til lausna. Það er jafnframt ljóst að gagnrýni Arons Arnar og sundfólksins á HM25 hefði í þessu tilfelli átt að beinast beint að þeim sem miðlaði upplýsingum til fjölmiðlanna, þ.e. undirritaðs, en ekki að fjölmiðlunum eða einstökum íþróttafréttamönnum.

Virðingarfyllst,

Hörður J. Oddfríðarson

Formaður Sundsambands Íslands.

Til baka