NMU lokið - Íris Norðurlandameistari
Þriðja og síðasta degi er lokið hér á NMU í Færeyjum.
Það sem bar hæst er að Íslendingar eignuðust Norðurlandameistara unglinga í 200m baksundi kvenna þegar Íris Ósk synti til sigurs á tímanum 2:14,55. Í undanrásum fyrr um daginn hafði hún náð bestum tíma inn í úrslitin með tímann 2:19,44.
Dagurinn hófst á 50m skriðsundi kvenna og þar synti Erla á tímanum 27,93. Bryndís var einnig skráð í greinina en var ógild vegna þjófstarts. Predrag Milos náði níunda sæti á tímanum 23,79 í sömu grein, Aron Örn synti á 24,11 og Hilmar Smári synti á 24,69 en Snær var dæmdur ógildur fyrir þjófstart.
Steingerður synti 200m baksund á 2:27,66 í undanrásum og í úrslitum endaði hún í þriðja sæti á tímanum 2:26,07.
Í 200m bringusundi synti Svanfríður á 2:44,49 sem dugði henni í úrslit. Úrslitasundið var betra og hafnaði hún í fimmta sæti á tímanum 2:42,92.
Í 400m skriðsundi var Sunneva Dögg þriðja inn í úrslit á tímanum 4:30,01 og endaði hún í fjórða sæti með tímann 4:27,43. Bára Kristín synti einnig í greininni og komst í úrslit á tímanum 4:30,05. Í úrslitum synti hún á 4:31,47 og endaði í fimmta sæti.
Þá var komið að Þresti í 400m skriðsundi. Hann synti á 4:06,50 og endaði ellefti. Hilmar Smári varð þriðji inn í úrslit í eldri flokknum á tímanum 4:13,97. Hann endaði svo fjórði í úrslitunum á tímanum 4:08,50.
Birta Lind var önnur inn í úrslit í 200m flugsundi á tímanum 2:32,23 og í úrslitum krækti hún í brons með tímann 2:31,79. Erla synti einnig í greininni og synti á 2:26,78 í undanúrslitum og 2:25,34 í úrslitum, sem dugði henni í fjórða sæti.
Síðasta einstaklingsgrein mótsins var svo 200m flugsund karla og þar synti Baldvin á tímanum 2:07,13. Sá tími dugði honum í úrslit og endaði hann fjórði seinni partinn á tímanum 2:07,50.
Kvennasveitin okkar synti svo 4x100m fjórsund í yngri flokkum en var því miður dæmd ógild vegna þjófstarts.
Karlasveitin synti í eldri flokkinum og endaði á tímanum 4:03,72, fjórða sæti.
Þá var þeim greinum lokið sem töldu til stiga en í lokin var 8x50m skriðsunds boðsund. Reglurnar segja að hlutur kvenna og karla á að vera jafn í sveitinni og einungis má helmingurinn vera úr eldri flokki á mótinu. Ísland átti eina sveit og hún fór á 3:32,92 og hana skipuðu þau Predrag, Erla, Bára Kristín, Þröstur, Birta María, Snær, Steingerður og Baldvin.
Fínn dagur liðinn og haldið var lítið lokapartý hér á hótelinu fyrir krakkana. Í fyrramálið verður mannskapurinn ræstur kl. 5:35 en rúturnar flytja okkur út á völl rétt eftir sex. Vélin leggur svo af stað kl. 9 og lendum við um 10:30 í Reykjavík.
Uppfært:
Kristófer náði besta tíma inn í úrslit í 400m skriðsundi á 4:03,13 og synti svo á 3:59,24 í úrslitum og tryggði sér með því silfur.
Einnig synti Svanfríður ekki 200m baksund heldur 200m bringusund og hefur þetta nú verið lagfært.
Við biðjumst velvirðingar á þessum mistökum.