Beint á efnisyfirlit síðunnar

AMÍ lokið - ÍRB vann stórsigur í stigakeppni félaga

01.07.2013

Þá er AMÍ 2013 á Akureyri lokið.  ÍRB vann stórsigur í keppninni og fékk 1016 stig.  Myndin er tekin af heimasíðu yfirþjálfara ÍRB Anthony Kattan.

Ýmsar tölfræðiupplýsingar er hægt að finna með því að skoða gögn mótsins.  Það er til dæmis hægt að finna það út að sundfólkið synti 968.600.000 millimetra, 260 stöðugildi þarf til að framkvæma mótið og 50 sjálfboðaliða.  Einnig er hægt að sjá að 222 einstaklingar stungu sér 1289 sinnum í laugina og með þessu sundfólki voru um 50 þjálfarar og fararstjórar.  Greinar mótsins vour 49, 213 verðlaunapeningum var útdeilt og 103 aldursflokkameistaratitlum.  Sundsamband Íslands þakkar Sundfélaginu Óðni, starfsfólki sundlaugarinnar og Akureyrarbæ fyrir gott samstarf og árangursríkt.

Þrjú aldurflokkamet voru sett á mótinu en þau eru:

Sveinamet

200 baksund

1 Brynjólfur Óli Karlsson  12 ára Breiðablik         2:26.82
100 baksund
1 Brynjólfur Óli Karlsson  12 ára Breiðablik            1:07.48 

Drengjamet

200 skriðsund
1 Ólafur Sigurðsson             14 ára  SH                     2:00.92

Minningarbikar og minningarsjóður Óla Þórs.

Árið 2010 var settur í gang farandbikar til minningar um Ólaf Þór Gunnlaugsson sem var sundmaður, sundþjálfari, sundkennari og driffjöður í sundíþróttum um mjög langt skeið.  Hann starfaði hjá mörgum félögum, ma KR, Keflavík, Vestra og svo síðast Fjölni.  Fjölskylda Ólafs gaf þennan bikar og gefur árlega eignarbikar sem fylgir farandgripnum.

Jafnframt var settur í gang minningarsjóður um Óla Þór í reglugerð um hann segir:

„Veita skal árlega úr sjóðnum, í fyrsta skipti árið 2011, við lok Aldursflokkameistaramóts Íslands AMÍ. Stjórn sjóðsins skal veita þeim sundmanni sem ávinnur sér Ólafsbikarinn styrk úr sjóðnum. Þá skal stjórn sjóðsins veita amk einum fötluðum sundmanni styrk úr sjóðnum.“

Árið 2013 fær Sunneva Dögg Friðriksdóttir úr ÍRB, Ólafsbikarinn og fær jafnframt kr. 10.000 í styrk úr minningarsjóðnum. Það var ekkja Óla Þórs, Svanhvít Jóhannsdóttir sem afhenti bikarinn.

Davíð Þór Torfason fær einnig kr. 10.000 styrk úr sjóðnum, en hann er 15 ára sundmaður sem er uppalinn í Fjölni.  Hann keppir einnig í flokki fatlaðra og byrjaði sundæfingar undir stjórn Óla Þórs.  

Afreksverðlaun einstaklinga  Í reglugerð AMÍ segir:

„Afreksverðlaun einstaklinga eru veitt þeim keppendum sem ná bestum samanlögðum árangri í tveimur greinum samkvæmt stigatöflu FINA í flokki pilta og stúlkna. Í flokki drengja og

telpna eru teknar þrjár stigahæstu greinarnar og í flokki sveina og meyja skal reikna árangur

úr 200 m fjórsundi, 400 m skriðsundi ásamt stigahæstu grein þar fyrir utan.

Allir sem taka þátt í mótinu 12 ára og yngri fá sérstaka viðurkenningu fyrir þátttöku sína.“

Í Sveinaflokki hlýtur afreksverðlaunin Brynjólfur Óli Karlsson úr Sunddeild Breiðabliks fyrir 200 metra fjórsund, 400 metra skriðsund og 100 metra baksund samtals 1173 stig.

Í Meyjaflokki hlýtur afreksverðlaunin Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir úr ÍRB fyrir

200 metra fjórsund, 400 metra skriðsund og 200 skriðsund samtals 1385 stig.

Í Drengjaflokki hlýtur afreksverðlaunin Ólafur Sigurðarson úr SH fyrir 200 metra skriðsund, 400 metra skriðsund og 1500 metra skriðsund samtals 1673 stig

Í Telpnaflokki hlýtur afreksverðlaunin Bryndís Bolladóttir úr Sundfélaginu Óðni fyrir 200 metra skriðsund, 100 metra skriðsund og 400 metra skriðsund samtals 1860 stig.

Í Piltaflokki hlýtur afreksverðlaunin Davíð Fannar Ragnarsson úr Sunddeild Aftureldingar fyrir 400 metra skriðsund og 200 metra skriðsund samtals 957 stig

Í Stúlknaflokki hlýtur afreksverðlaunin Íris Ósk Hilmarsdóttir úr ÍRB fyrir 200 metra baksund og 400 metra skriðsund samtals 1330 stig.

Ekki eru veitt verðlaun í hnokka og hnátuflokkum en stigahæsti hnokkinn er Hinrik Ingi Ásgrímsson ÍBV og stigahæsta hnátan er Svava Þóra Árnadóttir KR.

Aldurflokkameistarar félaga

Í reglugerð fyrir AMÍ segir:

„Aldursflokkameistaramót Íslands er stigakeppni félaga. Tveir hröðustu sundmenn félags í

hverri grein og árgangi taka stig fyrir félagið. Stig eru gefin miðað við sætaröð í árgöngum og reiknuð þannig að fyrir fyrsta sæti eru gefin 8 stig, fyrir annað sætið 6 stig, fyrir þriðja sætið 4stig, þá 3 stig, 2 stig og 1 stig þannig að 6 bestu í greininni í hverjum árgangi hljóti stig. Stigagjöf fyrir boðsund er samsskonar en er miðuð við aldursflokkana 12 ára og yngri meyjar og sveinar, 13-14 ára telpur og drengir og 15 ára opinn blandaður flokkur. Einungis ein sveit frá hverju félagi getur tekið stig í hverjum aldursflokki. Sú sveit skal merkt A-sveit. Verði félög jöfn að stigum í heildarstigakeppni félaga skulu stig gefin fyrir boðsund ráða sæti félagana. Verði félög þá ennþá jöfn að stigum skal hlutkesti ráða röð félaga.“

Endanleg röð félaganna varð þessi:

1. sæti ÍRB                                1016 stig

2. sæti Sf Ægir                          563 stig

3. sæti SH                                  365 stig

4. sæti Sf Óðinn                         315 stig       

5. sæti Sd Breiðabliks                276 stig

6. sæti Sd Fjölnis                      227 stig

7. sæti Sd KR                             1173 stig

8. sæti Sf Akraness                   142 stig

9. sæti Afturelding                      97 stig

10 sæti Sd Ármann                      35 stig

11. sæti ÍBV                                 34 stig

12. sæti Sd Stjörnunnar               27 stig

13. - 14 sæti Sf Rán og Sd Hamrs      7 stig

15. -16. sæti Sd UMFB og UMSB        5 stig


Myndir með frétt

Til baka