Beint á efnisyfirlit síðunnar

Dagur þrjú - Eygló með Íslandsmet

30.05.2013

Úrslitahluti dagsins kláraðist rétt í þessu. Íslendingar kræktu í fjögur gull, fjögur silfur og eitt brons í dag ásamt einu Íslandsmeti, einu landsmeti og einu mótsmeti.

Í 50m skriðsundi kvenna fékk Ingibjörg Kristín Jónsdóttir silfur á tímanum 26,08 og Karen Sif Vilhjálmsdóttir brons með tímann 26,39. Karlamegin synti Alexander Jóhannsson á tímanum 23,88 sem skilaði fimmta sæti og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson endaði sjötti á tímanum 24,28.

Í 100m bringusundi sigraði Anton Sveinn McKee á tímanum 1:03,17 og Hrafn Traustason náði silfri á 1:05,21. Í kvennaflokki sigraði Hrafnhildur Lúthersdóttir á tímanum 1:11,11 og Karen Sif hafnaði í sjötta sæti á tímanum 1:16,64

Í 200m skriðsundi kvenna setti Eygló Ósk Gústafsdóttir glæsilegt nýtt Íslandsmet og hrepti gull í leiðinni. Hún synti á 2:02,44 en gamla metið átti hún sjálf frá því í fyrra – 2:03.08. Systir hennar Jóhanna Gerða hafnaði í fimmta sæti á 2:06,92. Anton Sveinn krækti svo í silfur karlamegin með tímanum 1:54,27 og Aron Örn Stefánsson náði fimmta sætinu með tímann 1:55,99.

Í 4x100m fjórsundi kvenna sigraði íslenska sveitin á nýju mótsmeti, 4:12,96 sem við áttum fyrir. Gamla metið var 4:15,26. Sveitina skipuðu Þær Eygló Ósk, Jóhanna Gerða, Hrafnhildur og Ingibjörg Kristín.

Karlasveitin setti nýtt landsmet 4x100m fjórsundi karla þegar þeir syntu á 3:47,72. Gamla metið var 3:48,01, sett í Mónakó árið 2007. Sveitina skipuðu þeir Davíð Hildiberg, Daníel Hannes Pálsson, Anton Sveinn og Alexander.

Til hamingju með góðan árangur!

Til baka