Úrslit eftir fyrsta dag í Lúx
Eygló Ósk sigraði 200m baksund á nýju mótsmeti, 2:15.21 og Jóhanna Gerða tók annað sætið á tímanum 2:18.04. Kristinn náði silfri í sömu grein með tímann 2:09.34 og Kolbeinn fékk brons og synti á tímanum 2:10.64.
Inga Elín synti 200m flugsund á 2:21.45 sem dugaði henni í annað sætið. Rebekka synti á tímanum 2:35.23 og endaði í fimmta. Daníel Hannes synti svo sömu grein á tímanum 2:06.61 sem dugaði honum í annað sæti.
100m skriðsund kvenna fór þannig að Ingibjörg Kristín synti á tímanum 57.39 og hreppti silfrið. Karen Sif synti á 58.11 og endaði í fjórða sæti. Davíð Hildiberg og Alexander syntu einnig 100m skriðsund. Synti sá fyrrnefndi á 52.22 sem skilaði fimmta sæti og sá síðarnefndi á 52.48, sjöunda sæti.
Hrafnhildur setti nýtt mótsmet í 200m fjórsundi þegar hún synti á tímanum 2.17.27 og skilaði henni að sjálfsögðu gullinu líka. Eygló Ósk fékk silfur með tímann 2:20.99. Karlamegin voru það svo þeir Anton Sveinn og Hrafn sem syntu á tímunum 2:05.94 og 2:10.46. Anton sigraði greinina og Hrafn endaði í fjórða sæti.