Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundið hefst á Smáþjóðaleikunum í fyrramálið

27.05.2013

Sundið hefst á Smáþjóðaleikunum í fyrramálið kl. 8 að íslenskum tíma. Keppt er í undanrásum fyrir hádegi en úrslitahlutinn hefst 15:30.

Fyrstu Íslendingarnir til að stinga sér til sunds verða systurnar Jóhanna Gerða og Eygló Ósk Gústafsdætur, Ægi, þegar þær synda í seinni riðlinum í 200m baksundi.

Næstir koma Kristinn Þórarinsson, Fjölni og Kolbeinn Hrafnkelsson, SH, í 200m baksundi. Inga Elín Cryer og Rebekka Jaferian, báðar úr Ægi, synda þá 200m flugsund í beinum úrslitum, þar sem einungis er einn riðill. Kristinn mætir þá aftur til leiks ásamt Daníeli Hannesi Pálssyni, Fjölni í beinum úrslitum í 200m flugsundi. Næst er 100m skriðsund kvenna og þar synda þær Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Karen Sif Vilhjálmsdóttir, báðar úr SH. Í 100m skriðsundi karla synda þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, ÍRB og Alexander Jóhannesson, KR. Eftir það taka Hrafnhildur Lúthersdóttir, SH og Eygló Ósk við í 200m fjórsundi en í síðustu grein þennan morguninn synda Hrafn Traustason, SH og Anton Sveinn McKee, Ægi, 200m fjórsund í beinum úrslitum.

Tveir íslenskir dómarar gegna stöðu yfirdómara á mótinu. Það eru þau Svanhvít G. Jóhannsdóttir og Ólafur Baldursson.

Fyrir áhugasama bendum við á að hægt er að ná í "app" Smáþjóðaleikanna fyrir snallsíma. Það heitir JPEE 2013.

Heimasíða leikanna

Bein úrslit í sundi


Til baka