Beint á efnisyfirlit síðunnar

Helstu úrslit eftir annan úrslitahluta ÍM50

12.04.2013

Eygló Ósk Gústafsdóttir, úr Ægi, hjó nærri eigin Íslandsmeti í 200 m baksundi þegar hún kom fyrst í mark á 2.11,98 mínútum. Önnur varð Íris Ósk Hilmarsdóttir ÍRB á 2.20,77.

Anton Sveinn McKee, úr Ægi, var 11 sekúndum frá eigin meti í 1.500 m skriðsundi en vann engu að síður yfirburðarsigur á 15.38,58 mínútum. Næstur varð Færeyingurinn Oli Mortensen á 16.08,20 sem er færeyskt unglingamet. Arnór Stefánsson, SH, varð þriðji á tímanum 16:26,16

Ingibjörg K. Jónsdóttir, SH, varð fyrst í 100 m skriðsundi kvenna en SH vann þrefalt í þeirri grein. Ingibjörg synti á 57,38 sekúndum. Karen Sif Vilhjálmsdóttir varð önnur á 57,90 og Snjólaug Hansdóttir hafnaði í þriðja sæti.

Orri Freyr Guðmundsson SH varð íslandsmeistari í 100m skriðsundi karla á tímanum 52.64. Annar varð Alex Jóhannesson KR á tímanum 52.79 og þriðji í þessari grein varð Aron Örn Stefánsson ÍRB á tímanum 52.87.  Í þessari grein kom árangur Alex á óvart en skráningartími hans var 53.47 og því um nokkuð góða bætingu að gera.

Daniel Hannes Pálsson, Fjölni, varð Íslandsmeistari í 200 m flugsundi karla á 2.08,14 mínútum. Sveinbjörn Pálmi Karlsson, Breiðabliki, varð annar og Baldvin Sigmarsson, ÍRB, þriðji.

Rebekka Jaferian, Ægi, varð Íslandsmeistari í 400 m skriðsundi á 4.30,94. Bára K. Björgvinsdóttir, SH, varð önnur á tímanum 4:32,24 og Birta María Falsdóttir, ÍRB, þriðja á tímanum 4:40,09.

Loks vann Færeyingurinn Bartal Hofgaard Hestoy 200 m bringusund karla á 2.26,49 og bætti færeyska landsmetið um leið. Kristinn Þórarinsson, Fjölni, varð Íslandsmeistari í greininni en hann snerti bakkann annar  og Baldvin Sigmarsson, ÍRB, þriðji á tímanum 2:34,01

Til baka