Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ný heimasíða SSÍ

04.04.2013
Loksins, loksins.
Nú viku fyrir Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug tekst okkur að opna nýja heimasíðu Sundsambands Íslands.

Á Sundþingi fyrir rúmum mánuði var síðan kynnt og vonir stóðu til að okkur tækist að opna síðuna strax eftir þá helgi.  Það tókst ekki því miður og fyrir hönd stjórnar SSÍ biðst ég afsökunar á því um leið og ég biðst afsökunar á því að gamla síðan hefur verið ónothæf undanfarnar vikur.  Ástæða þessa alls er vinnulag þess aðila sem hýsir gömlu síðuna.

Við höfum lagt mikla áherslu á að hafa efni gömlu síðunnar aðgengilegt, því þar er saga SSÍ geymd frá árinu 2002.  Um leið höfum við ákveðið að vera mjög gagnrýnin á hvaða efni verður vistað  á nýju síðunni og hvernig það verður sett fram, þannig að síðan, efnið og gögnin týnist ekki í magni og skipulagsleysi.

SSÍ samdi við Advania um hönnun, uppsetningu og hýsingu.  Síðan er gerð í sama umhverfi og heimasíða Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og SSÍ nýtur góðs af mörgu því sem ÍSÍ hefur látið sérhanna fyrir sig.  Þá opnast möguleikar á að hafa hreyfimyndir á síðunni okkar, að tengja fréttakerfið og atburðadagatalið okkar við ÍSÍ síðuna og síðast en ekki síst nýtist þessi nýja síða til útbreiðslu á sundíþróttum.

Umsjón með síðunni, til að byrja með, hafa þau Emil Örn og Ingibjörg og vert að þakka þeim sérstaklega fyrir góða vinnu við að koma þessari nýju síðu af stað.  Við þiggjum mjög gjarnan ábendingar um hvað betur má fara, ábendingar um hvað þið sem notið síðuna eruð ánægð með og einnig ábendingar um eitthvað sem gæti vantað.

Til hamingju með nýja heimasíðu SSÍ, njótið vel.

Hörður J. Oddfríðarson, formaður SSÍ.
Til baka