Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundkona og Sundmaður ársins 2023

16.12.2023

Sundfólk ársins 2023

Til samræmis við samþykkt stjórnar SSÍ frá 12. desember 2023 og samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins tilkynnum við hér með að Snæfríður Sól Jórunnardóttir er sundkona ársins og Anton Sveinn McKee er sundmaður ársins.

Snæfríður syndir fyrir Álaborg í Danmörku og Anton Sveinn er úr Sundfélagi Hafnarfjarðar.

 

Við val á sundmanni ársins er stuðst við eftirfarandi viðmið:

  1. FINA stig úr bestu grein sundfólksins eru vegin saman í báðum brautarlengdum.
  2. Árangri samkvæmt úrslitum á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum.
  3. Árangri einstaklings (personal best) á IOC, FINA, LEN, GSSE, NSF.
  4. Íslandsmeti í samanburði við alþjóðleg met í báðum brautarlengdu.
  5. Staða sundmanns á heimslista í desember 2023 er vegin saman í báðum brautarlengdum.
  6. Þátttaka í landsliðsverkefnum.
  7. Árangur í landsliðsverkefnum.
  8. Ástundun sundfólksins.
  9. Íþróttamannsleg framkoma sundfólksins.

 

 

Við mat á árangri vegur árangur í langri braut 100% og í styttri braut 75%.


Sundkona ársins 2023 er Snæfríður Sól Jórunnardóttir

Snæfríður Sól er 23 ára gömul og syndir fyrir Álaborg í Danmörku. Hún náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu 2023, samkvæmt útgefnum viðmiðum SSÍ.

Snæfríður Sól varð í 14. sæti í 200m skriðsundi á Heimsmeistaramótinu, HM50 í Fukuoka í júní 2023 og í 17. sæti á sama móti í 100m skriðsundi. 

Nú í desember keppti Snæfríður Sól á Evrópumeistaramótinu í 25m laug í Búkarest þar sem hún varð í 7 sæti í 200m skriðsundi.

Snæfríður Sól setti samtals 13 Íslandsmet á árinu.

Frábær árangur hjá Snæfríði Sól á þessu ári en hún varð einnig Bikarmeistari með liði sínu Álaborg í nóvember.

Snæfríður Sól er í sjötta sæti á lista yfir hröðustu sundkonur í Evrópu þessa stundina í 200m skriðsundi í 25m laug, hún er einnig í sjötta sæti á heimslistanum í sömu grein.
Í 50m laug er Snæfríður í 11. sæti á Evrópulistanum og í 44 sæti á heimslistanum.

Snæfríður synti á sínum yngri árum í Hveragerði fyrir Sundfélagið Hamar, en flutti til Árósa þegar hún var 11 ára gömul. Hún keppti á Ólympíuleikum ungmenna sem haldnir voru í Buenos Aires 2018.

Snæfríður Sól keppti á sínum fyrstu Ólympíuleikum í Tokyo 2021.

Snæfríður er góð fyrirmynd jafnt sem sundkona og íþróttamaður utan laugar. Snæfríður Sól stundar nú Sálfræði nám í Háskólanum í Álaborg.

Snæfríður Sól mun keppa á Reykjavík International games sem fram fara í janúar n.k.

Snæfríður Sól er verðugur fulltrúi sundhreyfingarinnar og hún er vel að viðurkenningunni komin. Við hjá SSÍ óskum Snæfríði innilega til hamingju með að vera valin Sundkona ársins 2023.


Sundmaður ársins 2023 er Anton Sveinn  McKee

 

Anton Sveinn McKee verður þrítugur eftir 3 daga, eða þann 18.desember. Anton er sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hann er valinn sundmaður ársins, sjötta árið í röð.

 

Anton Sveinn synti í úrslitum á Evrópumeistaramótinu í 25m laug nú í byrjun desember. Þar gerði hann sé lítið fyrir og tryggði sér silfurverðlaun í 200m bringusundi.

Anton Sveinn synti á Heimsmeistaramótinu í 50m laug í Fukuoka í júní þar sem hann komst í 8 manna úrslit í 200m bringusundi og varð í 7. Sæti.  Á sama móti varð hann í 21. sæti í 100m bringusundi.

Anton Sveinn er í 2. sæti á heimslistanum í 200m bringusundi í 25m laug, hann er einnig nr 2 á heimslistanum í 25m laug.  Í 50m laug stendur hann í 15. Sæti í 200m bringusundi og í 5. sæti á lista yfir hröðustu sundmenn í Evrópu í sömu grein.

Anton býr í Vestur-Virginíuríki þar sem hann stundar æfingar, en eins og flestir vita var hann eini íslenski íþróttamaðurinn sem náði A- lágmarki fyrir ÓL í Tokyo 2020 og sem stendur er hann eini Íþróttamaðurinn á Íslandi sem hefur tryggt sér inn á Ólympíuleikana í París 2024.

Anton Sveinn er góð fyrirmynd jafnt sem sundmaður og íþróttamaður utan laugar. Hann hefur sýnt góða ástundun og mikla þrautseigju. Ólympíuleikarnir í Tókýó voru þeir þriðju sem Anton hefur tekið þátt í og nú undirbýr hann sig fyrir fjórðu Ólympíuleikana í París 2024 og skipar sér þar með í sérflokk meðal íslenskra íþróttamanna.

Anton hefur verið eljusamur/duglegur við að miðla reynslu sinni og þekkingu til ungra og upprennandi sundmanna á undanförnum misserum.

Anton er afar vel að tilnefningunni kominn og við hjá SSÍ óskum Antoni Sveini til hamingju með að vera valinn Sundmaður ársins 2023.

Myndir með frétt

Til baka