Beint á efnisyfirlit síðunnar

EM50 hefst í RÓM á morgun, fimmtudag

10.08.2022

 

Sundfólkið okkar hélt til Barcelona þ.1 ágúst s.l. þar sem þau voru við æfingar og undirbúning fyrir Evrópumeistaramótið í sundi. Sérstök áhersla var lögð á að velja stað þar sem sundfólkið gæti aðlagast því háa hitastigi sem nú er í Evrópu, en EM50 er haldið í útilaug í Róm.

Fjórir sundmenn náðu lágmörkum að þessu sinni en það eru þau Anton Sveinn McKee, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Simon Elías Statkevicius öll úr Sundfélagi Hafnarfjarðar og Snæfríður Sól Jórunnardóttir úr sundfélagi Álaborgar í Danmörku.

Þjálfarar eru þeir Eyleifur Jóhannesson yfirmaður Landsliðsmála hjá SSÍ, Mladen Tepacevic þjálfari í SH og Sergio Lopez þjálfari Antons Sveins. Þá fylgir hópnum Hlynur Sigurðsson sjúkraþjálfari.

Öll komu þau til Rómar á mánudaskvöld og nú er sundfólkið búið að æfa tvisvar í keppnislauginni, STADIO DEL NUOTO. Sundfólkinu líkar vel við þá sögufrægu sundlaug og eru þau öll orðin full tilhlökkunar að hefja keppni á fimmtudagsmorgun.

Anton Sveinn McKee var afar óheppinn í síðustu viku þegar hann fékk heiftarlega matareitrun á Spáni og hefur síðan þá verið að byggja sig hægt og rólega upp á ný. Að höfðu samráði við þjálfara sína hefur Anton ákveðið að draga sig úr keppni í 100m bringusundi sem fram fer á fimmtudaginn. Þess í stað mun Anton Sveinn einbeita sér að keppni í 200m bringusundi, sem er hans aðalgrein, en hún fer fram á laugardaginn.  Þannig gefst honum meiri tími til að ná sér eftir þessa skæðu matareitrun.

Þau Snæfríður, Jóhanna og Símon hefja öll keppni á morgun, fimmtudag. Símon Elías stingur sér fyrstur til sunds í 50m flugsundi, en hann er í fyrstu grein í fyrsta riðli.

Sú grein hefst kl 09:00 á staðartíma, 07:00 á íslenskum tíma.

Þær Snæfríður og Jóhanna synda 100m skriðsund, þar sem Jóhanna er í fyrsta riðli og Snæfríður í riðli tvö.  Sundið þeirra hefst kl 09:15 eða 07:15 á íslenskum tíma.

Úrslit mótsins er hægt að finna hér:

Dagskrá okkar fólks á EM50:

Fimmtudagur 11. ágúst

  • 50 flugsund kk – Símon
  • 100 skriðsund kvk – Jóhanna & Snæfríður

Föstudagur 12. ágúst

  • 50 flugsund kvk – Jóhanna
  • 100 skriðsund kk – Símon

    Laugardagur 13. ágúst

  • 200 skriðsund kvk – Snæfríður
  • 100 flugsund kk – Símon
  • 200 bringsund kk – Anton

Sunnudagur 14. ágúst

Mánudagur 15. ágúst

  • 50 skriðsund kvk – Jóhanna
  • 50 skriðsund kvk (Semi)

Þriðjudagur 16. ágúst

  • 50 skriðsund kk – Símon
Til baka