Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fortíðarfrétt á fimmtudegi - Fukuoka 2001

01.04.2021„Örn Arnarson, sundkappinn ungi úr Hafnarfirði, sýndi enn einu sinni frábæran árangur í gærmorgun á heimsmeistaramótinu í sundi, í Fukuoka í Japan, þegar hann varð í þriðja sæti í 200 metra baksundi á 1.58,37 mín. og sló um leið nýtt Íslands- og Norðurlandamet.

Þetta eru önnur verðlaunin sem Örn vinnur til í Fukuoka. Hann varð í öðru sæti í 100 metra baksundi síðastliðinn mánudag á nýju Íslands- og Norðurlandameti.

Árangur Arnar er fádæma góður, ein bronsverðlaun og ein silfurverðlaun á heimsmeistaramóti í sundi eru einstakt afrek. Aldrei fyrr í íslenskri íþróttasögu hefur íslenskur sundmaður komist á verðlaunapall á heimsmeistaramóti. Þessi frábæri íþróttamaður hefur skipað sér í fremstu röð í heiminum í þessum sundgreinum og gjörvöll þjóðin er stolt af hinum unga Íslendingi.

Á engan er hallað, þótt hér sé fullyrt að Örn Arnarson sé í dag mesti afreksmaður okkar í íþróttum.

Örn er ekki nema 19 ára gamall og getur átt mörg glæsileg keppnisár framundan. Sjálfur hefur hann tekið stefnuna á Ólympíuleikana í Aþenu árið 2004, svo vitnað sé í hans eigin orð hér í Morgunblaðinu haustið 1999: "Ég ætla mér að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004. Ég held að það sé of snemmt að stefna að því árið 2000 í Sydney, en eins og málin standa nú tel ég þetta alls ekki vera óraunhæft markmið á leikunum árið 2004."

Keppnisferill Arnar í sundi er stórglæsilegur, nánast samfelld sigurganga, þar sem Örn hefur stöðugt verið að bæta árangur sinn. Þess er skemmst að minnast þegar Örn náði þeim frábæra árangri á Evrópumeistaramótinu í sundi í Valencia á Spáni í desember í fyrra að verða tvöfaldur Evrópumeistari í 200 og 100 metra baksundi í 25 metra laug. Á því móti varð hann Evrópumeistari í 200 metra sundinu í þriðja sinn og hann varði sama titil í 100 metra sundinu öðru sinni og setti um leið nýtt Evrópumet.

Þá er ekki úr vegi að rifja upp hvernig gjörvöll þjóðin stóð á öndinni af spenningi og hrifningu 21. september í fyrra, þegar Örn Arnarson keppti í úrslitasundinu í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu og náði þeim glæsilega árangri að lenda í fjórða sæti. Örn varð þannig fyrstur íslenskra sundmanna til þess að komast í úrslit í sundgrein á Ólympíuleikum og með því að ná fjórða sætinu náði hann jafnframt bestum árangri Evrópumanna í þeirri sundgrein og setti um leið Norðurlandamet.

Engum blöðum er um það að fletta, að geysileg vinna, þrotlausar æfingar og gríðarleg sjálfsögun til margra ára liggja að baki þeim árangri sem Örn hefur ítrekað náð að bæta.

Það er bæði jákvætt og eðlilegt, að í brjóstum Íslendinga kvikni stolt þegar íslenskur afreksmaður nær að varpa ljóma á land og þjóð með þeim hætti sem Örn Arnarson hefur ítrekað gert. Jafnframt er bæði jákvætt og ákjósanlegt að íslensk æska horfi til Arnar í leit að fyrirmyndum. Örn Arnarson, geðþekkur, prúðmannlegur, með einbeittan vilja og sterkar taugar, er einmitt slík fyrirmynd sem við ættum að óska börnum okkar og unglingum til handa.

Ef marka má þann árangur, að hann var að bæta Íslandsmet og Norðurlandamet í svo gott sem hverju sundi á þessu skemmtilega heimsmeistaramóti í Japan, hlýtur að vera óhætt að draga þær ályktanir, að hann eigi enn eftir að bæta sig og slá met, jafnvel met á met ofan.“

 

Svona hljómar grein Morgunblaðsins frá 28. júlí 2001 þegar Örn Arnarson, þá tæplega tvítugur að aldri, varð fyrsti íslenski sundmaðurinn til að standa á verðlaunapalli á Heimsmeistaramóti í sundi. Þetta ár var hann valinn Íþróttamaður ársins í þriðja skiptið á ferlinum. 

Örn átti um 7 ár eftir í keppni áður en hann klæddi sig í þjálfaragallann en hann starfar nú sem afreksþjálfari hjá KVIK Kastrup í Danmörku. 

Met Arnars í 200m baksundi í 50m laug stendur enn.

Mynd: Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Til baka