Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundsamband Íslands 70 ára

25.02.2021Sundsamband Íslands er 70 ára í dag, það var stofnað þennan dag árið 1951 á skrifstofu Erlings Pálssonar lögreglumanns í lögreglustöðinni við Pósthússtræti, en fram að því hafði ÍSÍ haft með málefni sundíþrótta að gera.

Erlingur var líka fyrsti formaður SSÍ frá stofndegi sambandsins þar til hann lést árið 1966.

Starfssemi SSÍ hefur vaxið og dafnað frá stofnun. Lengi vel var enginn starfsmaður hjá sambandinu, en frá árinu 1986 hefur verið starfsfólk í vinnu hjá SSÍ, ýmist í hluta- eða fullu starfi. Nú eru 3 starfsmenn í fullu starfi hjá sambandinu, þau Ingibjörg Helga Arnardóttir framkvæmdastjóri, Eyleifur Jóhannesson yfirmaður landsliðsmála og Emil Örn Harðarson verkefnastjóri móta- og miðlunarsviðs. Ragnar Guðmundsson hefur aðstoðað Eyleif við ákveðin verkefni vegna landsliða og Hlín Ástþórsdóttir hefur haldið utan um bókhald sambandsins í hlutastarfi.

Til stóð að minna á afmæli SSÍ vikulega á þessu afmælisári, með ýmsum uppákomum, atburðum og sýningum, en vegna sóttvarna hefur þeim atburðum verið frestað. Þess í stað hefur orka starfsfólks og stjórnar ásamt forsvarsfólki sundfélaga, farið í finna lausnir til að halda sundmót með einföldum hætti. Vel tókst til með RIG miðað við aðstæður og ÍM50 er í undirbúningi.

Eitt af þeim verkefnum sem ýtt var úr vör fyrir nokkrum árum var að hefja söfnun heimilda til að skrifa sögu sundíþrótta á Íslandi. Við hvetjum þá sem eiga gögn, myndir eða minjagripi sem tengjast SSÍ að hafa samband skrifstofuna þannig að sagan týnist ekki.

Núverandi formaður SSÍ er Björn Sigurðsson.
Til baka