Beint á efnisyfirlit síðunnar

Yfirlýsing SSÍ vegna RIG 2021

29.01.2021Eins og fram hefur komið þá felur nýjasta reglugerð Heilbrigðisráðuneytisins í sér 50 manna fjöldatakmörkun í keppni.

Frá því að reglugerðin tók gildi hefur verið unnið hörðum höndum á skrifstofu SSÍ að finna leiðir sem rúmast innan reglugerðar til að halda RIG 2021 með sem eðlilegustum hætti.

Seinnipart þriðjudags fékk SSÍ neitun á þriðju og síðustu undanþágubeiðni um að fá að halda mótið með fleiri keppendum en 50.

Starfsfólk og stjórn SSÍ fundaði í hádeginu á miðvikudag og var tekin ákvörðun um að halda mótið með breyttu fyrirkomulagi í ár, vegna samkomutakmarkanna.

Það hefur reynst gríðarlega erfitt að sníða mótahald einstaklingsíþrótta að reglugerð sem virðist vera að mestu sniðin að keppni tveggja liða. Sundíþróttin er frábrugðin öðrum íþróttagreinum að því leyti að hún fer fram í klórvatni og í mannvirkjum þar sem loftræstibúnaður er sérstaklega öflugur; útaf klóruppgufun.

Sundlaugar eru opnar almenningi og hefur Laugardalslaug leyfi til að taka á móti 350 gestum hverju sinni. Þar eru börn fædd 2005 og síðar ekki meðtalin. Það kemur því spánskt fyrir sjónir að einungis 50 manneskjur megi vera á keppnisstað á sundmóti, að öllum meðtöldum og án tillits til aldurs.

Miðað við það skipulag sem Sundsambandið hefur lagt til í undanþágubeiðnum, eru litlar líkur á að smithætta verði meiri á keppnisstað en á því svæði sem opið er almenningi í sundi.

SSÍ hlakkar þrátt fyrir allt að sjá sundfólkið á sundmóti, en ekki hefur verið keppni á vegum SSÍ síðan í júlí 2020.

Til baka