Beint á efnisyfirlit síðunnar

Allt mótahald SSÍ fellt niður fram að áramótum.

20.11.2020

Á sama tíma og við gleðjumst yfir því að æfingar fyrir 2005 árganginn og yngri eru komnar af stað, þá hefur drjúgur tími starfsmanna á skrifstofu SSÍ undanfarna daga og vikur farið í að leita lausna til að koma sundstarfinu í eðililegt horf. 

Mikil vinna hefur farið í að finna leiðir og móta tillögur um hvernig hægt væri halda úti æfingum en á sama tíma virða og gæta að sóttvörnum. Þessar tillögur og hugmyndir hafa verið sendar til ÍSÍ og yfirvalda sem því miður hafa ekki hlotið hljómgrunn.

Á þriðjudaginn var, fékk SSÍ formlega höfnun frá Heilbrigðisráðuneytinu á útfærslu okkar á æfingum fyrir sundfólk sem er fætt árið 2004 og fyrr. Rökstuðningurinn fyrir þeirri höfnun var ekki mjög nákvæmur sem gefur tilefni til að halda áfram á sömu braut. Undanþágubeiðnin fyrir æfingar hjá  úrvalshóp SSÍ er enn til skoðunar hjá heilbrigðisráðuneytinu.  Vonandi getum við tilkynnt ykkur um jákvæðar fréttir af því máli bráðlega.

Gott samstarf hefur verið við yfirþjálfara aðildarfélaga Sundsambandsins og höfum við rætt um hvernig best væri að klára 25m tímabilið. Niðurstaðan var sú að halda tvö sundmót í sitthvorri lauginni um miðjan desember og að SH og Fjölnir myndu sjá um mót fyrri hluta dags en SSÍ yrði síðan með smærri útgáfu af ISL liðakeppni seinnipartinn. Öll vorum við full tilhlökkunar sérstaklega eftir að hafa fylgst með ISL mótaröðinni s.l mánuð þar sem Anton Sveinn synti svo vel með liði sínu Toronto Titans.

Í ljósi áframhaldandi samkomutakmarkana hefur SSÍ tekið þá erfiðu ákvörðun að halda ekki fyrirhugað sundmót.  Í nýjustu reglugerð heilbrigðisráðherra er ekki leyfilegt að halda mót. Það er því fyrirsjáanlegt að það verður ekki hægt fyrr en í fyrsta lagi eftir 2. desember n.k. Þannig að tími til undirbúnings er afar knappur og óljóst hver fjöldatakmörkunin verður þá.  Það verður líka að hafa í huga að sundfólk okkar yngra en 15 ára (fætt 2005 og síðar) eru rétt nýbyrjuð að æfa og enn er óljóst hvenær þau sem fædd eru 2004 og fyrr mega hefja æfingar.

Þetta  er engin óskastaða, en eftir vandlega yfirferð þá teljum við hjá SSÍ þessa ákvörðun skynsamlega og nauðsynlega og vonum að þið sýnið því skilning.

Gangi allt að óskum ættu allir sundmenn að verða komnir í laugina þann 2.desember n.k. Við hjá SSÍ leyfum okkur að vera bjartsýn og vonum að ekki verði frekari hlé gerð á æfingum vegna sóttvarna eftir þann tíma.

Sundsambandið vill þó taka fram að verði raunin sú að mótahald verði leyfilegt eftir 2. desember n.k er félögum að sjálfsögðu frjálst að halda innanfélagsmót.

Vinsamlega sendið SSÍ upplýsingar um slík mót með a.m.k með þriggja daga fyrirvara.

Baráttukveðjur til ykkar allra,

Til baka