Beint á efnisyfirlit síðunnar

Bryndís Rún leggur sundbolinn á hilluna

18.11.2020

Þær fréttir hafa nú borist frá Akureyri að ein af fyrrum sund-drottningum Íslands hún Bryndís Rún Hansen hafi tekið ákvörðun um að vinda sundbolinn og leggja hann á hilluna. Bryndís Rún var í fremstu röð hér á landi í mörg ár, en svo virðist sem meiðsli sem hafa verið að hrjá hana hafi hjálpað til við þá ákvörðun hennar að hún láti nú staðar numið.

Um leið og Sundsamband Íslands óskar Bryndísi alls hins besta er vert að geta þess að hún er margfaldur íslandsmeistari og methafi,enn í dag á hún þrjú Íslandsmet. Gildandi met hennar eru frá árinu 2016, tvö eru í 50m flugsundi, annað í 25m og hitt 50m laug og svo stendur enn met hennar í 100m flugsundi í 25m braut. Bryndís Rún vann einnig til margra verðlauna á Smáþjóðaleikum fyrir Íslands hönd og hún komst bæði í undanúrslit á Evrópu- og Heimsmeistaramótum.

Bryndís Rún var kjörin Íþróttamaður Akureyrar í þrígang og árið 2016 var hún kjörin Íþróttakona Akureyrar eftir að bærinn tók að verðlauna hvort kyn fyrir sig.

Bryndís Rún Hansen hefur svo sannarlega átt glæstan feril og getur nú vonandi litið um öxl og verið hreykin af sinni frammistöðu víða um heiminn.

Við hjá SSÍ þökkum þessari brosmildu sundkonu fyrir samstarfið undanfarin ár og óskum henni alls hins besta í framtíðinni. Vonandi fáum við hana til að miðla reynslu sinni til komandi kynslóða því að jafn öflugur sundmaður og hún hefur án efa mikið fram að færa.  

Til hamingju með ferilinn Bryndís Rún og takk fyrir allt þitt framlag til sundíþróttarinnar

https://www.akureyri.net/is/ithrottir/glaesilegur-ferill-bryndisar

https://www.akureyri.net/is/mannlif/hraedd-vid-ad-setja-mer-of-stora-drauma?fbclid=IwAR1vyI7vnLSbAKTi_Ape9XzmqI6gOvqKTA3XiIkXY_2uvmEEFqOnIiA6zn8

Til baka