Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÍM50 17-19. júlí

14.07.2020

Íslandsmeistaramótið í 50m laug fer fram í Laugardalslaug helgina 17-19. júlí nk. Mótið fer fram í samstarfi við Íþróttasamband fatlarða.

ÍMótið verður með örlítið breyttu sniði en vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar var ákveðið að synda allar greinar í beinum úrslitum, í stað undanrása og úrslita eins og hefur tíðkast síðastliðin ár á þessu móti.

Aldursflokkameistaramótið, AMÍ, heppnaðist einstaklega vel í Hafnarfirðinum í byrjun júlí þar sem rétt tæplega 300 keppendur á aldrinum 9 – 17 ára mættu. Þar skemmtu þau sér og öðrum og uppskáru mörg hver ótrúlega vel, þrátt fyrir þetta skrítna tímabil síðustu mánuði.

ÍM50 virðist ekki verða eftirbátur AMÍ en um 150 manns hafa skráð sig til keppni, sem er litlu færra en síðustu ár og verður að teljast mjög góð mæting á þessum tíma árs, þegar sundfólk er alla jafna komið í sumarfrí.
Gífurlega sterkt sundfólk keppir á ÍM 50 mótinu í ár. Anton Sveinn McKee úr SH tekur að sjálfsögðu þátt, en hann er eini Íslendingurinn sem hefur náð lágmarki á Ólympíuleikana sem fram fara í Tokýó á næsta ári. Þá verða EM25 fararnir Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Dadó Fenrir Jasminuson úr SH á meðal keppenda og munu þau freista þess að bæta í verðlaunasafnið. Þá er vert að vekja athygli á því að Ragnheiður Ragnarsdóttir úr ÍBR, Ólympíufari og margfaldur Íslandsmeistari tekur þátt í 50m skriðsundi. 

Að þessu sinni fáum við erlenda gesti á ÍM 50. Frá Danmörku koma þau Mie Ö. Nielsen og Viktor Bromer, sundfólk úr Sundfélagi Álaborgar, en þau hafa margoft áður keppt hérlendis. Að þessu sinni fylgja þau þjálfara sínum honum Eyleifi Jóhannessyni í síðasta sinn á sundmót undir hans stjórn, en hann tekur við nýrri stöðu yfirmanns landsliða hjá SSÍ frá og með 1. ágúst nk. Tyrkinn öflugi Metin Aydin hefur einnig skráð sig til keppni, en hann er unnusti Bryndísar Rúnar Hansen, sundkonu úr Óðni.

Vert er að geta þess að þónokkrir ungir og efnilegir sundmenn sem fengið hafa boð um styrk og skólagöngu erlendis verða einnig á meðal keppenda og gefst þeim upplagt tækifæri til að sýna hvað í þeim býr áður en þau halda á vit ævintýra og enn meiri framfara í skólum víðs vegar um Bandaríkin.

Gleymum því ekki hve lánsöm við erum að fá að halda hér stórmót í sundi, en sú er ekki raunin í öðrum löndum þar sem útbreiðsla veirunnar hefur haft enn meiri áhrif en hérlendis. Gætum að þeim góða árangri sem náðst hefur við sóttvarnir hérlendis og sýnum ábyrga hegðum um leið og við gleðjumst öll saman á ÍM 50 í Laugardalslauginni. Mótið hefst á föstudaginn kl 17:00.

Sjáumst þar!

Til baka