Beint á efnisyfirlit síðunnar

Tilkynning - ÍM50, AMÍ og önnur mót

06.05.2020

Kæru félagar

Nú er loks farið að sjást til sólar, daginn tekið að lengja og sundfólkið okkar er farið að synda aftur en það var mikil gleði þegar sundæfingar hófust 4. maí.

SSÍ hefur undanfarnar vikur verið með ýmsar hugmyndir á borðinu um hvernig best væri að ljúka þessu tímabili. Rætt hefur verið við ýmsa aðila í hreyfingunni og niðurstaðan er svohljóðandi:

Nýjar dagsetningar:

Akranesleikarnir fara fram helgina 12. – 14. júní og verða þeir fyrir yngri sundmenn. Sundfélag Akranes mun skipuleggja mótið og taka tillit til takmarkana frá Almannavörnum. Sf. Akranes mun senda frá sér nánari upplýsingar bráðlega.


Landsbankamót ÍRB fer fram 19. – 21. júní og það verður fyrir eldri sundmenn. ÍRB mun skipuleggja mótið með tilliti til takmarkana frá Almannavörnum. ÍRB mun senda út upplýsingar um mótið von bráðar.

Aldursflokkameistaramót Íslands fer fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði dagna 3. – 5. júlí. SH mun sjá um mótið að þessu sinni, en vegna frestunar á mótinu þá sá Sf. Óðinn sér ekki fært að halda AMÍ þetta árið. SSÍ og SH munu að sjálfsögðu skipuleggja mótið með tilliti til fjöldatakmarkana en fulltrúar Almannavarna vona að fjöldatakmörkun verði komin upp í 2000 manns í júlí.

ÍM50 verður haldið í Laugardalslaug dagana 17. – 19 .júlí. SSÍ sér um það mót og mun senda út upplýsingar um það á næstu dögum.

Lágmörk:

Það verður hægt að ná lágmörkum fyrir AMÍ á Akranesleikunum og á Landsbankamótinu. Einnig verður hægt að ná lágmörkum fyrir ÍM50 á öllum ofangreindum mótum.
Eins og allir vita breytti útbreiðsla Covid- 19 veirunnar miklu og af þeim mótum sem halda átti erlendis hefur því verið frestað eða hreinlega hætt við þau.

Nú hefur NSF ákveðið að hætta við NÆM sem átti að fara fram í júlí. SSÍ setti fram tillögu um að halda mótið í haust en sú tillaga var felld því miður.

Búið er að fella niður EMU sem einnig átti að fara fram í júlí og í dag bárust fréttir af því að EM50 verði frestað fram í maí 2021.

Eins og margoft hefur komið fram þá er óvissan mikil en við hjá SSÍ ætlum ekki að leggja árar í bát heldur viljum við halda ótrauð áfram og við vitum að þið munið gera það líka. Stefna SSÍ er að þeir sem hafa náð lágmörkum á þessi erlendu mót í sumar fari á mót erlendis við fyrsta tækifæri, um leið og við sjáum landamæri fara að opnast og löndin í kringum okkur verða tilbúin að halda sundmót.

Þó að sundmenn hafi náð lágmörkum á þessi erlendu mót þá þarf ástundun hjá þeim að vera til staðar til að taka þátt í móti erlendis í haust og því er mikilvægt að slá ekki slöku við.

SSÍ mun á næstu vikum fara yfir atburðardagatal fyrir næsta tímabil og umsóknarfrestur til að sækja um mót verður til 15.júní n.k. SSÍ hefur hug á því að breyta til á atburðardagatalinu og setja inn svokölluð C mót þar sem 12 ára og yngri og þau sem eru að stíga sín fyrstu skref fá tækifæri til að keppa og efla færni sína sundmótum sem eru minni í sniðum og seinna geta þau svo tekið þátt í B og A mótum. Nánari upplýsingar varðandi þessi mót verða sendar út síðar.
Til baka