Beint á efnisyfirlit síðunnar

Eyleifur Jóhannesson ráðinn til starfa

12.03.2020

Eyleifur Jóhannesson sundþjálfari hefur verið ráðinn í starf yfirmanns landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands.

Eyleifur býr yfir mikilli reynslu og hefur náð frábærum árangri á sínum ferli Hann er fæddur og uppalinn á Akranesi en þar æfði hann sjálfur sund. Hann hóf þjálfaraferil sinn 1994 sem þjálfari yngri hópa hjá KR.

Frá 1996-2007 var hann yfirþjálfari hjá KR, ÍA, Breiðablik og gerði Sf. Ægi að bikarmeisturnum 3. ár í röð, 2004 – 2006. Árið 2007 fluttist hann til Álaborgar í Danmörku þar sem hann hefur verið síðastliðin 13 ár. Þar hefur hann gengt yfirþjálfarastöðu hjá Aalborg Svømmeklub.

Hann hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir góðan árangur. Sundfólkið hans, þá aðallega Mie Ö. Nielsen og Viktor Bromer hafa náð fjölmörgum verðlaunum á Heimsmeistara- og Evrópumeistaramótum en Mie náði einnig í brons á ÓL 2016 með boðsundssveit Danmerkur í 4x100m fjórsundi, þar sem sveitin setti einnig Evrópumet. Í Danmörku hefur Álaborg verið eitt af topp þremur liðum síðustu 7 árin og bikarmeistarar árin 2014, 2015 og 2017. Þá hefur Eyleifur sjálfur verið valinn afreksþjálfari og unglingaþjálfari ársins í Danmörku á árunum 2010 – 2016.

SSÍ er nú í stefnumótunarvinnu með það að markmiði að byggja upp markvisst afreksstarf. Þar er lögð áhersla á að fjölga iðkendum hér á landi. Samhliða landsliðsstarfinu mun Eyleifur koma að þeirri vinnu.

Störf verkefnastjóranna Örnu Þóreyjar Sveinbjörnsdóttur og Mladens Tepavcevic munu breytast en þau verða þó áfram í tilfallandi verkefnum á vegum SSÍ.

Eyleifur klárar tímabilið hjá Álaborg og hefur störf fyrir SSÍ þann 1. ágúst nk. SSÍ hlakkar mikið til að vinna með Eyleifi í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Björn Sigurðsson formaður Sundsambands Ísland segir um ráðningu Eyleifs: “Það er mikill fengur í því að fá Eyleif til starfa með okkur til að byggja ofan á það góða starf sem unnið hefur verið hjá okkur á síðustu árum. Reynsla hans og þekking mun ekki einungis nýtast afreksstarfi okkar heldur mun hann einnig vera til ráðgjafar fyrir þjálfara og félög innan SSÍ og þar með sundhreyfinguna í heild sinni."


Þjálfara ferill Eyleifs:


1994-1996 Þjálfari yngri hópa - KR (ISL)

1996-1997 Yfirþjálfari - Breiðablik (ISL)

1997-2000 Yfirþjálfari - KR (ISL)

2000-2004 Yfirþjálfari - ÍA (ISL)

2004-2007 Yfirþjálfari - Ægir (ISL)

2007-2020 Yfirþjálfari - Aalborg (DK)

 

Þjálfari á alþjóðlegum stórmótum:

EMU: 2004, 2006, 2011, 2012, 2013

EM25: 2001, 2002, 2007, 2011, 2013, 2017

EM50: 2002, 2014, 2016

HM25: 2012, 2014

HM50: 2003, 2005, 2007, 2011, 2015

ÓL: 2016

Til baka