Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundkona og sundmaður ársins 2019

13.12.2019

Sundfólk ársins 2019

Í samræmi við samþykkt stjórnar SSÍ 12. desember 2019 og samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins er ljóst að Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Fjölni, er sundkona ársins 2019 og Anton Sveinn McKee Sundfélagi Hafnarfjarðar, er sundmaður ársins 2019.  

Eftirfarandi viðmið gilda  fyrir valið: 

  1. FINA stig úr bestu grein sundfólksins úr báðum brautarlengdum voru vegin saman
  2. Árangur sundfólksins á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum var metinn miðað við úrslit greina
  3. Besti árangur einstaklings (personal best) á IOC, FINA, LEN, GSSE, NSF
  4. Íslandsmet og alþjóðleg met í báðum brautarlengdum voru metin
  5. Staðsetning á heimslista í 12. desember 2019 í báðum brautarlengdum var vegin saman
  6. Þátttaka í landsliðsverkefnum var metin
  7. Árangur í landsliðsverkefnum var metinn
  8. Ástundun sundfólksins var metin
  9. Íþróttamannsleg framganga sundfólksins var metin

Langa brautin gildir 100% og stutta brautin 75% í mati á sundfólkinu


 

Sundkona ársins 2019 er Eygló Ósk Gústafsdóttir

(12801 stig)

Eygló Ósk Gústafsdóttir er 24 ára sundkona úr Sunddeild Fjölnis. Hún náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu 2019, samkvæmt útgefnum viðmiðum SSÍ.

Eygló Ósk Gústafsdóttir tók þátt í Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru í Svartfjallalandi og vann þar til þriggja gullverðlauna í 50m, 100m og 200m baksundi. Eygló Ósk náði þar lágmarki á Heimsmeistaramótið í 50m laug sem haldið var í Gwangju í Suður-Kóreu í júlí. Þar tók hún þátt í 50m og 100m baksundi.

Eygló náði einnig lágmörkum á Norðurlandameistaramótið í Færeyjum og Evrópumeistaramótið í 25m laug sem fram fór í Glasgow nú í desember. Hún ákvað að keppa einungis á EM25, enda voru mótin haldin nánast á sama tíma. Í Glasgow varð Eygló 24. í 100m baksundi, 18. í 200m baksundi og 23. í 50m baksundi. Að auki var hún hluti íslensku boðsundssveitarinnar sem setti landsmet í 4 x 50 metra skriðsundi á EM25.

Eygló hefur að eigin sögn verið að ná sér af bakmeiðslum sem hafa hrjáð hana undanfarin misseri og hefur nú nánast náð fullum bata. Hún mun einbeita sér að því næstu mánuði að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana sem haldnir verða í Tokyo 2020.  Eygló Ósk Gústafsdóttir er ávallt jákvæð í fasi og fús til að miðla sinni reynslu af löngum og farsælun ferli í sundíþróttinni.

Hún er því vel að tilnefningunni komin og við hjá SSÍ óskum Eygló Ósk til hamingju með að vera Sundkona ársins 2019.


 

 

Sundmaður ársins 2019 er Anton Sveinn McKee

(26097 stig)

Anton Sveinn McKee er 26 ára sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton býr nú í Vestur-Virginíuríki þar sem hann stundar æfingar en hann tók sér ársleyfi í vinnu og fluttist þangað frá Boston, til að ná hámarksárangri fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2020. Hann er sundmaður ársins annað árið í röð.

Anton Sveinn náði ótrúlega góðum árangri á árinu 2019. Hann synti á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í maí þar sem hann vann til þriggja gullverðlauna og setti eitt Íslandsmet, á Heimsmeistaramótinu í 50m laug í Gwangju í Suður Kóreu í júlí náði hann í milliriðla í 200m bringusundi og þar náði hann Ólympíulágmarki og bætti tvö Íslandsmet, í 50m og 100m bringusundi.

Þá var komið að Evrópumeistaramótinu í 25m laug í Glasgow. Anton setti þar 7 Íslandsmet, 1 norðurlandamet og jafnaði annað, ásamt því setti hann eitt landsmet í boðsundi með Karlaboðsundsveit Íslands. Þá náði hann inn í úrslit í öllum þremur einstaklingsgreinum sínum á mótinu og náði best 4. sæti. Árangur Antons gerir hann að fimmta hraðasta sundmanni heims í 200m bringusundi á árinu 2019.

Anton Sveinn er fyrirmynd í sem og fyrir utan laugina. Hann kemur vel fyrir, hefur sýnt elju við að miðla sinni reynslu til ungs og upprennandi sundfólks og má vera stoltur af sínum afrekum.

Hann er því vel að tilnefningunni kominn og við hjá SSÍ óskum Antoni Sveini til hamingju með að vera Sundmaður ársins 2019.

 

Myndir með frétt

Til baka