Beint á efnisyfirlit síðunnar

Landsmet í 4x50m fjórsundi karla

08.12.2019

Boðsundssveit karla setti rétt í þessu nýtt landsmet í 4x50m fjórsundi þegar íslenska sveitin keppti í fyrsta riðli greinarinnar í undanrásum á EM25 í Glasgow.

Þeir Kolbeinn Hrafnkelsson (24,90), Anton Sveinn McKee (25,72), Kristinn Þórarinsson (23,94) og Dadó Fenrir Jasminuson (22,41) skipuðu sveitina en lokatíminn var 1:36,97. Gamla landsmetið var 1:38,66, sem sett var á HM25 í Windsor í Kanada árið 2016. Þessi tími hjá Kolbeini er búinn að loða við hann í rúmlega 2 ár, en þetta er hans besti árangur frá upphafi. Hann synti fyrst á þessum tíma 2017, aftur 2018 og nú í þriðja skipti. Kolbeinn viðurkenndi að þetta væri orðið örlítið frústrerandi en hafði samt nokkuð gaman af.

Þetta markar lok keppninnar fyrir íslenska hópinn en strákarnir enduðu í 20. sæti af 22.

Þessi úrslit tryggja það einnig að allir íslensku keppendur mótsins settu met hér í Glasgow. Kvennasveitin setti landsmet í 4x50m skriðsundi auk þess sem sett voru landsmet í blönduðu boðsundi. Anton hefur svo auðvitað átt frábært mót, slegið 7 Íslandsmet í einstaklingsgreinum og bætt tvö norðurlandamet, auk boðsundsmetanna.

Þetta er jákvæður og skemmtilegur hópur sem hefur verið hér í Glasgow frá byrjun vikunnar og mega allir aðkomandi vera stoltir af framkomu og frammistöðu.

Samantekt á árangri hópsins kemur síðar.

Myndir með frétt

Til baka