Beint á efnisyfirlit síðunnar

Jóhanna bætti sig í 50m skriðsundi

08.12.2019

Fimmti og síðasti mótsdagur hér í Glasgow er hafinn. Það voru þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sem hófu keppni í 50m skriðsundi í undanrásum og þá synti Kristinn Þórarinsson 50m baksund.

Sundkonurnar þrjár syntu allar saman í öðrum riðli í 50m skriðsundi, ekki á hverjum degi sem maður sér þrjá íslenska fána á skortöflunni á stórmóti.

Jóhanna Elín hélt uppteknum hætti og náði þriðju bætingunni í þremur sundum, virkilega vel gert. Hún var hröðust af þeim stöllum, synti á tímanum 24,37 en hennar besti tími var frá því á ÍM25 í síðasta mánuði, 24,43. Jóhanna endaði í 33. sæti af 53 keppendum. Hún sagðist ekki hafa undirbúið sig sérstaklega fyrir mótið, bara haldið uppteknum hætti við æfingar og hugsað um að synda eins hratt og hún gat og sjá svo hvað myndi gerast. Greinilegt að það svínvirkar fyrir hana.

Ingibjörg Kristín synti á 25,64 og hafnaði í 41. sæti. Hún var ekki langt frá tímanum sem hún var skráð inn á (25,58) frá því á ÍM25 í fyrra. Ingibjörg á best 25,31 í greininni og sagðist hún vera ákveðin í því að leggja áherslu á 50m og 100m skriðsund í framtíðinni.

Snæfríður Sól var rétt við sitt besta. Hún á best 25,52 sem hún synti fyrir nákvæmlega mánuði síðan en fór í dag á 25,65 og því rétt á eftir Ingibjörgu í 42. sæti. 50m skriðsund er ekki hennar aðalgrein en þetta var meira upp á skemmtunina sagði hún, ljúka mótinu á góðum spretti.

Kristinn var þá næstur í 50m baksundi. Hann hefur ekki verið sáttur við sjálfan sig það sem af er móti og sagði hann eftir sundið að frammistaða sín í dag hafi kórónað vonbrigðin. Hann synti á 24,92 en best á hann 24,27 frá því í fyrra. Hann synti á 24,32 á ÍM25 í síðasta mánuði og var því að vonast til þess að ná bætingu hér. Kristni til hróss er að hann er með hausinn á réttum stað, hann er fullkomlega meðvitaður um eigin getu og ætlar að halda ótrauður áfram í æfingum og skoða hvernig hægt er að bæta upp fyrir frammistöðuna á þessu móti. Það er þó ekki allt neikvætt segir hann, hann er mun nær sínu besta á þessu móti en flestum öðrum stórmótum sem hann hefur synt á og er á réttri leið með vinnu í andlega þættinum. Kristinn endaði í 47. sæti af 59. keppendum.

Næst er það boðsund - 4x50m fjórsund karla þar sem röðunin verður eftirfarandi: Kolbeinn Hrafnkelsson (bak), Anton Sveinn McKee (bringa), Kristinn (flug), Dadó Fenrir Jasminuson (skrið). Þetta er síðasta greinin sem við Íslendingar syndum í undanrásum á mótinu.

 

Myndir með frétt

Til baka