Beint á efnisyfirlit síðunnar

Landsmet í 4x50m skriðsundi í blönduðum flokki

07.12.2019

Dagur fjögur á Evrópumeistaramótinu í 25m laug hefur farið ágætlega af stað. Ísland átti fimm keppendur skráða í undanrásum auk þess að eiga boðsundssveit í 4x50m skriðsundi í blönduðum flokki.

Eygló Ósk Gústafsdóttir og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir syntu báðar 50m baksund. Eygló Ósk synti í öðrum riðli á tímanum 28,01 sek. Íslandsmet hennar í greininni, 27,40 er orðið þriggja ára gamalt og er Eygló handviss um að hún sé á réttri leið í endurhæfingunni. Eygló var nokkuð sátt með tímann, sem er 18/100 úr sekúndu hraðari en hún náði á Íslandsmeistaramótinu fyrir um mánuði síðan en hefði þó viljað ná undir 28 sekúndurnar. Eygló hafnaði í 23. sæti af 35 en til að komast í undanúrslit hefði þurft að synda undir 27,50 sek. Þetta var síðasta einstaklingsgrein hennar á mótinu.

Ingibjörg Kristín synti mjög gott sund á tímanum 27,88, sem er einnig bæting frá því á ÍM25 (27,97). Innkoman í bakkann var það eina sem hún hafði út á að setja en annars var hún glöð með árangurinn. Ingibjörg endaði í 21. sæti en hún á eina einstaklingsgrein eftir, 50m skriðsund sem er á dagskrá í fyrramálið. 

Snæfríður Sól Jórunnardóttir var næst í laugina i 200m skriðsundi. Snæfríður bætti Íslandsmetið í greininni fyrir um mánuði síðan þegar hún synti á 1:58,42 á danska meistaramótinu. Hún var örlítið frá sínu besta því hún synti á 1:58,89 í dag og var virtist nokkuð svekkt með sjálfa sig. Hún lenti í 25. sæti af 48 keppendum en síðasti tími inn í úrslit var 1:55,89. 

Kristinn Þórarinsson var næstur en hann synti 100m fjórsund í undanrásum. Kristinn bætti Íslandsmetið í greininni á ÍM25 í nóvember þegar hann sigraði á tímanum 53,85. Kristinn synti á 54,48 í dag og því nokkuð vonsvikinn eftir sundið en hann endaði í 31. sæti af 46 keppendum. Hann er í góðu formi og átti nóg inni en taldi að tæknileg atriði, eins og annar snúningurinn í sundinu, hafi haft áhrif á frammistöðuna. Kristinn var þó staðráðinn í að láta þetta ekki á sig fá, vinna úr því hvað fór úrskeiðis og leggja allt sitt í boðsundin og sitt síðasta einstaklingssund, sem er 50m baksund í fyrramálið.

Þá var komið að sveit Íslands í 4x50m skriðsundi í blönduðum flokki. Þar setti hún glæsilegt og kærkomið landsmet í greininni eftir dag sem hafði kannski ekki gengið alveg upp fyrir margt sundfólkið okkar í dag. Sveitin synti á 1:35,55 og bættu þriggja ára gamalt met um 1,15 sek. Sveitina skipuðu þau Dadó Fenrir Jasminuson (22,48), Kristinn Þórarinsson (23,10), Ingibjörg Kristín Jónsdóttir (24,98) og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir (24,99). Þau voru ánægð með sitt en þetta gefur góð fyrirheit fyrir 50m skriðsund kvenna á morgun, þar sem þær Ingibjörg og Jóhanna verða í eldlínunni ásamt Snæfríði Sól.

Dadó Fenrir skráði sig úr 100m skriðsundi til að leggja meiri áherslu á boðsundið í lok hlutans.

Íslendingar hafa þó ekki lokið keppni í dag því Anton Sveinn McKee syndir í úrslitum í 100m bringsundi seinni partinn en sundið er á dagskrá kl. 18:08 samkvæmt tímatöflu mótsins.

Til baka