Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslandsmet í 100 bringu og landsmet í boðsundi

06.12.2019

Þetta var góður morgun hér í Tollcross lauginni í Glasgow. Dadó Fenrir Jasmínuson reið á vaðið þegar hann synti 50 metra skriðsund á tímanum 22,59 sekúndur sem er 30/100 frá hans besta tíma í greininni. Taktfast og gott sund og Dadó vantaði í raun bara herslumuninn á að bæta tímann sinn.

Þá var komið að Eygló Ósk Gústafsdóttur í 200 metra baksundi, en það er hennar besta grein. Hún synti á 2:10,46 sem er besti tími hennar á árinu. Hún á best frá því á EM25 í Ísrael 2015, 2:03,53 sem jafnframt er Íslandsmet. Sundið hennar var mun betur úrfært en 100 metra sundið hennar í fyrradag þar sem hún náði litlum takti. Nú var augljóst að hún var að synda sitt sund sem er jákvætt, hún er mun sterkari en hún hefur verið og verkefni næstu vikna og mánaða verður að viðhalda styrknum og ná upp hraða.
Svo kom að þætti Antons Sveins Mckee. Hann setti í morgun sjötta Íslandsmetið sitt í jafnmörgum sundum hér á mótinu. Þegar tíminn hans frá í morgun (57,21) á núna 10 besta tíma í heiminum á þessu ári og 8 besta tíma í Evrópu. Það verður gaman að fylgjast með honum í milliriðlunum í kvöld.

Næst stakk sér til sunds Kristinn Þórarinsson í 200 metra fjórsund. Hann náði tímanum 2:00,44 sem er rétt aðeins frá hans besta (2:00,04) en töluvert betra en hann átti á ÍM25 í nóvember (2:02,87). Að sundi loknu sagði Kristinn að hann hefði gert sér vonir um meira, en hann á eftir að synda 100 metra fjórsund og 50 metra baksund.

Í lokin var boðsund 4x50 metra skriðsund kvenna. Íslensku sveitina skipuðu þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir (25,48), Ingibjörg Kristín Jónsdóttir (24,64), Snæfríður Sól Jórunnardóttir (25,04) og Eygló Ósk Gústafsdóttir (25,78). Þær komu inn á tímanum 1:40,94 sem er nýtt landsmet. Þess má til gamans geta að Ingibjörg Kristín átti einnig þátt í gamla landsmetinu frá árinu 2009 í Istanbul. Þar synti íslenska sveitin á tímanum 1:42,90 þannig þetta var 2 sekúnda bæting þrátt fyrir að árið 2009 væri ennþá verið að synda í gömlu plastgöllunum. Önnur skemmtileg staðreynd er að árið 2009 var Hrafnhildur Lúthersdóttir í sveit Íslands, en hún sat á pöllunum hér Glasgow og horfði á nýja metið sett.

Myndir með frétt

Til baka