Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton aftur í úrslit

06.12.2019

Anton Sveinn McKee synti nú rétt í þessu í undanúrslitum í 100m bringusundi á Evrópumeistaramótinu í 25m laug í Glasgow. Fyrir sundið hafði Anton Sveinn komist í úrslit í báðum hinum greinunum sínum á mótinu og í dag varð engin breyting á því hann varð áttundi og tryggði sér sæti í úrslitasundinu sem fram fer seinni partinn á morgun.

Anton Sveinn synti á 57,35 sem er einungis 14/100 hægari tími en hann náði í morgun þegar hann bætti eigið Íslandsmet í greininni. Aðspurður hvað hann hefði gert öðruvísi nú seinni partinn, ákvað hann að taka fyrri 50 metrana örlítið hraðar en í morgun en þá var minna eftir fyrir seinni helming sundsins.

Anton er búinn að synda samtals 7 sund á þremur dögum og setja 6 Íslandsmet og því eðlilegt að þreyta gæti verið farin að segja til sín. Hann er hinsvegar staðráðinn í að nýta kærkomna hvíld vel á morgun, fara yfir sundið sitt og ná upp orku fyrir úrslitasundið.

Til baka