Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslensk stúlka á HMU í Synchro

27.08.2019

Ung og efnileg íslensk stúlka, Helena Eliasson, verður fyrsti Íslendingurinn til þess að keppa á heimsmeistaramóti í samhæfðri sundfimi og listsundi. Um 330 keppendur taka þátt, frá 35 löndum. 

Helena keppir fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramóti ungmenna í samhæfðri sundfimi sem fram fer í Samorin í Slóvakíu dagana 28. ágúst til 1. september. Þetta er í fyrsta sinn sem mótið er haldið en það er ætlað börnum 13 - 15 ára.

Helena á leik strax í fyrramálið þar sem hún keppir í undanrásum í einstaklingsflokki og næst föstudaginn 30. ágúst þar sem hún keppir í "Figures". Sá flokkur fer alla jafna fram áður en úrslit greinanna hefjast en þar kemur hver og einn keppandi einn síns liðs í laugina, frammi fyrir 5 manna dómnefnd og framkvæmir stuttar æfingar án tónlistar. Dómnefndin gefur æfingunum einkunnir frá 1 upp í 10. 

Helena Eliasson er 13 ára og á íslenskan föður og japanska móður. Hún býr og æfir í Kyoto en fjölskyldan veitti íslenska HM50 hópnum góða aðstoð þegar þau voru í æfingabúðum í Kyoto, áður en þau fóru til keppni í Gwangju í Suður-Kóreu.

Hér má sjá dagskrá mótsins

Hér er umfjöllun FINA um mótið

Myndir með frétt

Til baka