Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton 16. í 200 bringu - "ánægður að hafa náð ÓL lágmarkinu"

25.07.2019

Anton Sveinn McKee lauk keppni hér á HM50 þegar hann synti 200 metra bringusund í milliriðlum. Anton varð að lokum 16. á tímanum 2:10,68.

Í undanrásum í morgun náði Anton Ólympíulágmarkinu í þessari grein þegar hann synti 2:10,32. Þar með varð hann fyrstur Íslendinga til að komast á leikana 2020. Anton var heldur hraðari fyrri hundrað metrana en í morgun og sagðist hafa synt sundið eins og hann lagði upp með eftir reynsluna í morgun. 

Þegar hann var inntur eftir framhaldinu sagði hann að nú tækju við mjög miklar æfingar þar sem hann ætlaði að einbeita sér að sundinu fram að leikum, taka sér frí frá öðru á meðan.  Með því að ná ÓL lágmarkinu svona snemma verður betra tækifæri til að einbeita sér að ýmsum tækniatriðum og hraða því nú þyrfti ekki að elta lágmarkið lengur.  Hann ætlar að flytjast til Virginíuríkis í Bandaríkjunum og vera þar við æfingar hjá mjög virtum bringusundsþjálfara. 

Það verður því nóg að gera hjá okkar manni og gaman að fylgjast með honum á þessari vegferð.

Rússinn Anton Chupkov synti í sama riðli og Anton Sveinn okkar og setti mótsmet í greininni, 2:06,83 en hann á einnig Evrópumetið 2:06,80, en ástralinn Matthew Wilson bætti um betur í seinni riðlinum og jafnaði heimsmetið og setti þar með mótsmet þegar hann kom í bakkann á tímanum 2:06,67. Frábærlega skemmtilegir riðlar sem gaman var að horfa á.

 Á morgun er frí hjá íslenska sundfólkinu, en Kristinn Þórarinsson syndir á laugardagsmorgun 50 metra baksund.

 

 

Til baka